138. löggjafarþing — 111. fundur,  26. apr. 2010.

jafnvægi í ríkisfjármálum.

[15:07]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Nú veit ég ekki nákvæmlega til hvaða ummæla hæstv. forsætisráðherra hv. þingmaður er að vísa og almennt er náttúrlega betra að forsætisráðherra svari fyrir það sem forsætisráðherra hefur sagt og fjármálaráðherra fyrir það sem fjármálaráðherra hefur sagt o.s.frv. En ég er ekki að skorast undan því að ræða um ríkisfjármál og verkefni sem þar eru fram undan.

Það er alveg rétt að við eigum talsvert eftir í þeim efnum að ná jöfnuði í afkomu ríkissjóðs eins og staðan er í dag, hallinn á þessu ári stefnir í að verða um 100 milljarðar kr. Það er alveg ljóst að það þarf heilmikið að gerast til að heildarjöfnuði verði náð á árinu 2013 eins og áætlunin gerir ráð fyrir. Ég held að deilur fyrir fram um hlutföll skatta og niðurskurðar þjóni ekki miklum tilgangi heldur verði það reyndin sem mestu máli skiptir. Þegar hún er skoðuð bendir flest til þess að stærri hluti aðlögunarinnar sé á útgjaldahlið en við höfum áður reiknað með. Niðurstöðutölur fyrstu mánaða þessa árs vísa eindregið í þá átt að tekist hafi að ná jafnvel frekari samdrætti í útgjöldum en áætlunin gerir ráð fyrir og öfugt, að tekjurnar gefi heldur minna. Reyndin kann því að verða sú að þessi hlutföll verði talsvert önnur en menn áður ætluðu, en eins og kunnugt er höfðu menn haft þá viðmiðun að þetta yrði nálægt jöfnu eða kannski 55 á móti 45. Útfærslan fyrir árin 2011, 2012 og 2013 er að sjálfsögðu ekki frá gengin og efnahagsáætlunin sjálf mun sæta endurskoðun núna á fyrri hluta þessa árs. Það er reiknað með því að fyrir mitt ár verði búið að fara yfir hana og í ljósi reynslunnar og hvar við erum stödd, að móta áherslur um framhaldið þannig að vonandi geta menn á þingi, áður en það lýkur störfum í júní, rætt þetta út frá betri upplýsingum (Forseti hringir.) sem horfa til framtíðar og taka mið af því hvar við verðum þá á vegi stödd í okkar áætlun.