138. löggjafarþing — 111. fundur,  26. apr. 2010.

skeldýrarækt.

522. mál
[20:50]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin og fagna því sérstaklega að hann telur eins og ég að það þurfi aðkomu fjármálastofnana að þessari atvinnugrein til að hún geti náð flugi. Eins og ég rakti áðan þá hörmum við mjög að okkur skyldi ekki takast að fara hraðar í uppbyggingu á kræklingaræktinni. Auðvitað ekki svo hratt að menn kynnu ekki fótum sínum forráð heldur þannig að við næðum góðum árangri. Auðvitað hefur ýmislegt þvælst fyrir mönnum í þeim efnum. Ég tel að með því að marka þessari atvinnugrein góðan lagalegan ramma og með þeirri stefnumótunarvinnu sem unnin hefur verið af nefndinni, sem ég hef nokkrum sinnum gert að umtalsefni, eigum við að geta lagt grunninn að þessari uppbyggingu með miklu skynsamlegri hætti.

Þeir sem nú starfa við kræklingarækt hafa lagt mikið fjármagn til uppbyggingar, sumir tugi milljóna. Svona rækt er fjármagnsfrek en skilar hins vegar ekki tekjum fyrr en eftir nokkurn tíma. Menn þurfa að binda heilmikla peninga án þess að fá nokkrar tekjur og ekki er saga á bak við þessa rækt sem fjármálastofnanir vilja styðjast við. Menn þekkja hefðbundnar atvinnugreinar en síður atvinnugreinar eins og þessa og þess vegna þarf aðkomu einhvers eins og Byggðastofnunar að þessu. Ég vil spyrja hæstv. ráðherra hvort ríkisstjórnin eða ráðuneytið hafi haft einhvern atbeina að þessu og hvort ráðuneytið hafi t.d. rætt þessi mál við Byggðastofnun. Þá er ég ekki endilega að tala um að Byggðastofnun komi að þessu í formi hlutafjár heldur t.d. með lánveitingum á skikkanlegum kjörum til lengri tíma til að gefa mönnum rými til að byggja sig upp þangað til tekjurnar fara að skila sér.