138. löggjafarþing — 112. fundur,  27. apr. 2010.

störf þingsins.

[13:32]
Horfa

Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Um daginn ræddum við um hjúskaparlöggjöfina, þ.e. að það yrði ein hjúskaparlöggjöf í landinu sem gilti fyrir bæði gagnkynhneigða og samkynhneigða. Þetta er mál sem búið er að ræða margoft í þingsölum og það var mjög ánægjulegt að heyra þann samhljóm sem var á milli allra flokka. Allir flokkar tjáðu sig um málið, sem er frumvarp hæstv. dómsmálaráðherra um eina hjúskaparlöggjöf, og allir flokkar sögðust styðja þetta mál af alhug. Það má segja að sterk pólitísk samstaða ríki um að taka þetta skref, enda er það í takt við vilja þjóðarinnar. Þær kannanir sem gerðar hafa verið, eins og Gallup-kannanir, sýna að um 70% þjóðarinnar telja að samkynhneigðir eigi að geta gift sig bæði borgaralega og í kirkju eins og gagnkynhneigðir. Það hefur því orðið mjög mikil og djúpstæð breyting á þjóðarsálinni, sterk viðhorfsbreyting sem er í anda þeirra gilda sem kirkjan m.a. stendur fyrir sem ganga út frá manngildi og kærleika.

Vegna þess að þetta mál er núna komið inn í allsherjarnefnd vil ég spyrja hv. þm. Steinunni Valdísi Óskarsdóttur, formann allsherjarnefndar, hvort það sé ekki nokkuð víst að málið klárist núna í vor í ljósi þess hve sterk hin pólitíska samstaða er um það og líka í ljósi þess að málið er ekki flókið. Það er búið að ræða það svo oft og viðhorfin hafa komið fram í umræðunni. Má ekki ganga út frá því sem nokkuð vísu að þetta mál klárist í vor (Forseti hringir.) þannig að ein hjónabandslöggjöf gildi fyrir alla?