138. löggjafarþing — 113. fundur,  27. apr. 2010.

vatnalög og varnir gegn landbroti.

577. mál
[18:18]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Í tilefni af því sem fram kom í ræðu hæstv. iðnaðarráðherra og kemur fram í greinargerð með því frumvarpi sem hér er til umræðu, frumvarpi til laga um afnám vatnalaga, langar mig til að varpa fram tveimur spurningum til hæstv. ráðherra.

Sú fyrri snýr að því að ég held að mikilvægt sé að upplýst verði hvenær hæstv. iðnaðarráðherra hyggst leggja fram nýtt frumvarp til vatnalaga. Það merkilega við það frumvarp sem hér er til umræðu er að það kveður einungis á um afnám núgildandi laga en hæstv. ráðherra hefur ekki lagt fram neitt frumvarp um það sem á að taka við af þeim lögum sem hún leggur nú til að verði afnumin.

Í annan stað vil ég fá upplýst, ef hæstv. ráðherra getur það, hvaða sérfræðingar það eru sem iðnaðarráðuneytið og hæstv. iðnaðarráðherra hefur leitað til við samningu nýs frumvarps til vatnalaga. Þess er getið í greinargerðinni að fengnir hafi verið sérfræðingar til verksins en ekki er getið um hverjir það eru. Ég held að ágætt væri að upplýsa okkur um það vegna þess að umfjöllun um vatnalög og löggjöf um vatnsréttindi á Alþingi hefur á síðustu árum verið ákaflega mikil og djúpstæður ágreiningur á milli flokka enda varðar þetta gríðarlega hagsmuni, þannig að ágætt væri að upplýst væri af hálfu hæstv. ráðherra hverjir það eru sem vinna að samningu frumvarpsins sem ekki hefur verið lagt fram.