138. löggjafarþing — 113. fundur,  27. apr. 2010.

vatnalög og varnir gegn landbroti.

577. mál
[18:22]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Það er óþarfi að fara í hártoganir eins og hæstv. ráðherra gerði. Hér er verið að leggja til að vatnalögin sem samþykkt voru á Alþingi 2006 verði afnumin. Það er rétt hjá hæstv. ráðherra að gildistöku þeirra var frestað tvisvar en lögin voru engu að síður samþykkt á þinginu og nú er verið að afnema þau. Það er alveg rétt að í gildi eru ákvæði vatnalaga frá 1923 þannig að sjálfu sér er ekki tómarúm í löggjöfinni en engu að síður er mjög sérstakt að ekkert annað taki við þegar lög eru afnumin á þingi vegna þess að hæstv. ráðherra hefur uppi áform um það. Ég furða mig á því að þetta sé gert með þessum hætti og því lýst yfir að verið sé að semja frumvarpið í iðnaðarráðuneytinu á þessum tímapunkti. Hæstv. ráðherra svaraði ekki hvenær frumvarpið kæmi fram á þinginu. Þá varpa ég fram þeirri spurningu: Hvenær sér hæstv. ráðherra fram á að það frumvarp verði samþykkt loksins þegar það kemur fram á þinginu? Er ætlun hæstv. ráðherra að reyna að fá það samþykkt fyrir lok þessa þings, þ.e. í sumar, eða einhvern tíma síðar?

Mér finnst órökstutt það sem fram kemur í greinargerðinni að þessi vinnubrögð geti talist eðlileg, að það sé eðlilegt að núverandi vatnalög frá 2006 séu numin úr gildi áður en annað frumvarp er lagt fram á þinginu sem á að leysa þau af hólmi og við það látið sitja að vísa til þess að mikil vinna sé í gangi í iðnaðarráðuneytinu og haft sé samband við alls kyns menn úti í bæ. (Forseti hringir.) En þingið hefur hvorki séð tangur né tetur af því frumvarpi enn sem komið er.