138. löggjafarþing — 113. fundur,  27. apr. 2010.

vatnalög og varnir gegn landbroti.

577. mál
[18:39]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég held að það sé ekkert nýtt í því að ég og hæstv. ráðherra séum ósammála þegar kemur að afstöðu okkar til vatnalaganna frá árinu 2006. Það hefur legið fyrir og við höfum rifist um efnisatriði þess frumvarps í þingsal oftar en einu sinni, oftar en tvisvar og oftar en þrisvar. Ég er hins vegar algerlega ósammála hæstv. ráðherra um að lögin frá 2006 geti ekki orðið valkostur í þeirri umræðu. Við eigum auðvitað að vega og meta alla þá valkosti sem til umræðu eru. Við höfum vatnalögin frá 1923, við höfum vatnalögin frá 2006, sem ekki hafa tekið gildi en voru samþykkt á þinginu, og síðan kemur þriðji valkosturinn sem þingið hefur ekki enn fengið að sjá sem er væntanlegt frumvarp frá hæstv. iðnaðarráðherra. Hvernig getur hæstv. ráðherra talað um að lögin frá 2006 geti aldrei orðið valkostur fyrir þingmenn í þessari umræðu en lætur svo að því liggja að frumvarp sem enginn þingmaður hefur séð eða frumvarpsdrög sem verið er að vinna að í iðnaðarráðuneytinu séu hugsanlegur valkostur fyrir okkur sem eigum að taka ákvörðun um það hvernig haga á framtíðarlöggjöf í vatnamálum? Ég átta mig ekki á því, þetta er allt saman einhver rökleysa.

En úr því að hæstv. ráðherra tekur undir það að allt eigi að vera uppi á borðum, öll gögn eigi að liggja fyrir, skora ég á hæstv. ráðherra að einhenda sér í að klára það frumvarp sem er til vinnslu í iðnaðarráðuneytinu og leggja það fram þannig að við getum rætt málin á víðum grundvelli byggðum á því frumvarpi, lögunum frá 2006, skýrslu vatnalaganefndar sem við bæði stóðum að, og á grundvelli þess mikla litteratúrs sem til er á þessu réttarsviði.