138. löggjafarþing — 113. fundur,  27. apr. 2010.

vatnalög og varnir gegn landbroti.

577. mál
[18:44]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég er alveg sammála hæstv. ráðherra um að við eigum að byrja með hreint borð en þá er það auðvitað verkefni ríkisstjórnarinnar og hæstv. iðnaðarráðherra að hreinsa sitt borð. Það er ekki hægt að byrja hér og tala um að menn eigi að hefja umræðu um vatnalög með hreint borð þegar einhvers konar leyndarhyggja eða framtaksleysi hjá hæstv. iðnaðarráðherra ræður för. Vandi okkar í stjórnarandstöðunni er sá að hæstv. ráðherra hefur ekki lagt fram frumvarp til vatnalaga sem getur orðið grundvöllur umræðu um framtíðarskipan þeirra mála. Það frumvarp er boðað í greinargerð með frumvarpinu en það hefur ekki verið lagt fram og við vitum því ekki hverjir valkostirnir eru.

Ég er ekki að leggjast í víking fyrir lögunum frá 2006. Það er ekki svo þrátt fyrir að hæstv. ráðherra stilli málunum þannig upp. Við vorum ósammála í afstöðu okkar til þeirra laga en það er ekki þar með sagt að ég sé að mælast til þess að þau verði samþykkt á þinginu óbreytt. Engu að síður er margt ágætt í þeim lögum og ég minni á það, úr því að hæstv. ráðherra sagði að lögin frá 2006 hefðu aldrei haft neina þýðingu, að vinna vatnalaganefndarinnar byggði á því sem fram kom í því frumvarpi. Ég geri þess vegna ráð fyrir að hæstv. ráðherra muni í verðandi frumvarpi byggja á einhverju af því sem fram kom í lögunum frá 2006 þrátt fyrir að þar séu auðvitað ákveðin prinsippatriði sem hún fellir sig ekki við eins og fram kom í andsvari hennar.

Mikilvægt er að menn geri sér grein fyrir því að löggjöf um vatnamál varðar grundvallarsjónarmið og grundvallarlöggjöf varðandi eignarrétt á Íslandi, grundvallarhagsmuni landeigenda og almennings, og því er mikilvægt að vandað sé vel til verka. Þess vegna þarf það frumvarp sem hæstv. ráðherra boðar í greinargerðinni að liggja fyrir áður en þau lög sem nú eru í gildi og voru samþykkt á Alþingi árið 2006 verða afnumin.