138. löggjafarþing — 114. fundur,  28. apr. 2010.

sameining á bráðamóttöku Landspítala.

351. mál
[13:35]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Álfheiður Ingadóttir) (Vg):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Gunnari Braga Sveinssyni fyrir þessa fyrirspurn sem ég vil reyna að svara þótt seint sé og verð að gangast við því að nokkrum sinnum hefur það verið vegna fjarveru minnar sem ekki hefur tekist að koma þessu máli hér á dagskrá. En spurningin lýtur að tvennu, annars vegar að heildarkostnaði við að sameina bráðamóttöku Landspítala á einum stað í Fossvogi og hins vegar kostnað við viðbyggingu sem nú er, eins og hv. þingmaður sagði, orðin að veruleika.

Tvær stærstu bráðamóttökur Landspítalans, sú í Fossvogi og við Hringbraut, sameinuðust í eina bráðadeild í Fossvogi í lok mars 2010. Áfram verða starfræktar við Hringbraut bráðamóttaka barna, bráðamóttaka kvenna og bráðaþjónusta geðdeildar þannig að í staðinn fyrir fimm bráðamóttökur á Landspítalanum eru þær nú orðnar fjórar. Þetta voru tvær stærstu.

Heildarkostnaður við sameininguna er áætlaður um 226 millj. kr. og skiptist þannig að gert er ráð fyrir að húsnæðisbreytingarnar í Fossvoginum kosti 184 milljónir. Síðan er kostnaður við undirbúning og þjálfun starfsfólks áætlaður 12 milljónir og endurnýjun búnaðar og tækja er talinn kosta 30 millj. kr.

Húsnæðisbreytingarnar í Fossvogi felast m.a. í 160 m² viðbyggingu sem spurt var um og er áætlaður kostnaður við hana 60 millj. kr. og er hann þriðjungur af áætluðum heildarkostnaði við húsnæðisbreytingarnar. Aðrar húsnæðisbreytingar hafa miðað að því að lagfæra núverandi húsnæði á 2. hæð til þess að taka við auknum fjölda bráðasjúklinga, bæta móttöku fjöláverkasjúklinga, aðstöðu til forflokkunar og forgangsröðunar sjúklinga, einnig til þess að bæta vinnuaðstöðu starfsmanna og lögreglunnar og ekki síst að bæta aðstöðu sjúklinga.

Frú forseti. Nú eru um þrjár vikur frá því að bráðadeildirnar voru sameinaðar. Það er skemmst frá því að segja að árangurinn af þessari sameiningu virðist hafa verið mjög góður. Fyrstu dagana var reyndar óvenju mikil aðsókn eins og menn þekkja og fyrstu vikuna komu að meðaltali fleiri á sameinuðu deildina heldur en til samans á báðar deildirnar áður. Þetta má rekja til ákveðinna áfalla í samfélaginu. Ég vil nefna þar eldgosið í Eyjafjallajökli, en vegna eldgossins hefur þurft að manna samhæfingarstöð Almannavarna við Skógarhlíð stöðugt og það eykur á álag starfsmanna bráðadeildarinnar.

Það er skemmst frá því að segja að þetta reyndi auðvitað mjög á alla verkferla nýsameinaðrar bráðadeildar en deildin stóðst álagið. Þar munar að sjálfsögðu mest um mannauðinn. Árangurinn byggir á því frábæra starfsfólki sem þarna er en einnig á undirbúningnum að þessari sameiningu sem hefur verið skipulagður í þaula og hefur verið unnið að í allt að tvö ár. Deildin stóðst þetta mikla álagspróf fyrstu dagana og er það vel.

Ég vona að þessar upplýsingar veiti svör við fyrirspurn hv. þingmanns.