138. löggjafarþing — 116. fundur,  30. apr. 2010.

frumvarp um ein hjúskaparlög.

[12:19]
Horfa

dómsmála- og mannréttindaráðherra (Ragna Árnadóttir):

Virðulegi forseti. Í umræðum um ein hjúskaparlög kom skýrt fram að í því frumvarpi er ekki gert ráð fyrir skyldu presta til að vígja hjónabönd ef það er vegna þess að þeir telja sig vegna trúarsannfæringar ekki geta gert það. Þess vegna er það látið í hendur trúfélaga hvernig þau standa að þessum málum. Ég gerði mér grein fyrir því þegar frumvarpið var lagt fram að það gætu orðið deilur um þetta. Ég hvatti til almennrar umræðu og stend við það en kjarni málsins er þessi: Ein hjúskaparlög fyrir alla, brýn réttarbót, jafnrétti og jafnræði. Hvernig þjóðkirkjan ætlar að standa að þessum málum verður hún að gera upp við sig. Ég vakti sérstaklega athygli á því í umræðunni á þinginu hvort Alþingi mundi inna þjóðkirkjuna eftir skoðunum sínum um þetta. En ég tel að viðbrögðin við þessu komi ekki algerlega á óvart þótt ég hefði óneitanlega kosið að þjóðkirkjan, sem hefur samfélagslegum skyldum að gegna, hefði tekið jákvæðar í málið.