138. löggjafarþing — 116. fundur,  30. apr. 2010.

stjórn fiskveiða.

370. mál
[13:36]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Eins og frumvarpið lítur út er gert ráð fyrir því að á þessu fiskveiðiári séu þessi 6.000 tonn sem eiga að vera til ráðstöfunar til strandveiðanna ekki dregin frá heildarafla áður en honum er úthlutað til kvótabáta og krókaflamarksbáta. Hins vegar er gert ráð fyrir því að þetta fyrirkomulag verði tekið upp strax á næsta ári, sem mun að gefnum þeim forsendum sem virðast blasa við núna, leiða til þess að úthlutaður kvóti minni báta, krókaflamarksbáta og almennra aflamarksbáta, mun dragast saman á næsta fiskveiðiári. Við reyndum að fá þessu breytt við 2. umr. en meiri hluti Alþingis kaus því miður að fara aðra leið. Nú gerum við aðra tilraun sem er sú að þetta fyrirkomulag, skerðingin, taki ekki gildi fyrr en á fiskveiðiárinu 2012 og 2013. Með öðrum orðum, að þetta verði ekki dregið frá á næsta fiskveiðiári né því þarnæsta. Þetta er sanngirnismál og ég trúi því ekki að óreyndu að þeir þingmenn sem tekið hafa undir þessi sjónarmið (Forseti hringir.) hér í þingsölum greiði því ekki atkvæði að fara þá leið sem við leggjum til hér.