138. löggjafarþing — 118. fundur,  6. maí 2010.

skipan og kjör seðlabankastjóra.

[10:33]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F):

Frú forseti. Komið hefur fram í fjölmiðlum að tekin hafi verið ákvörðun um það í forsætisráðuneytinu, og þá væntanlega af forsætisráðherra, að semja sérstaklega við nýjan seðlabankastjóra um launakjör sem væru úr samræmi við það sem hæstv. forsætisráðherra hafði sjálfur ætlast til að næði yfir alla starfsmenn ríkisins, sem sé að enginn yrði með hærri laun en hæstv. forsætisráðherra sjálfur. Þá er spurningin þessi: Hvernig stendur á því að gerður var slíkur sérsamningur við seðlabankastjórann og hvenær var ákveðið að sá sem nú skipar stól seðlabankastjóra skyldi ráðinn seðlabankastjóri? Ég spyr vegna þess að þegar verið var að setja ný lög um Seðlabankann var um það töluverð umræða að búið væri að ákveða hverjum ætti að úthluta stól seðlabankastjóra, það yrði aðeins einn seðlabankastjóri og var töluvert um það rætt að það yrði sá maður sem síðar var skipaður. Var m.a. bent á pólitísk tengsl við ríkisstjórnarflokkana. Í framhaldi af því höfum við séð Seðlabankann beita sér í allmörgum málum með töluvert pólitískum hætti til varnar ríkisstjórninni. Því leita ég eftir svörum frá hæstv. forsætisráðherra um það hvenær ákvörðun var tekin um ráðningu viðkomandi manns og hvenær ákveðið var að semja við hann á sérkjörum.

Einnig væri fróðlegt að heyra frá hæstv. forsætisráðherra hvort haldið verður áfram þeirri stefnu að ráða tímabundið inn starfsmenn í ráðuneytin til að þurfa ekki að auglýsa stöðurnar og hvort eðlilegt sé að mati hæstv. forsætisráðherra að ráðnir séu menn í ráðuneytin á kostnað skattgreiðenda til þess, að því er virðist, að tala máli ríkisstjórnarinnar í fjölmiðlum.