138. löggjafarþing — 118. fundur,  6. maí 2010.

vinnustaðaskírteini og eftirlit á vinnustöðum.

382. mál
[18:10]
Horfa

Frsm. meiri hluta fél.- og trn. (Sigríður Ingibjörg Ingadóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætla síst að gerast einhver útvörður aðila vinnumarkaðarins hér í ræðustól á Alþingi en ég vil þó árétta að ég sé ekki að umræða um lýðræði í lífeyrissjóðum tengist beinlínis þessu frumvarpi þótt full þörf sé á slíkri umræðu. Ég tel að frumvarpið um vinnustaðaskírteinin sé komið til vegna mikils þrýsting frá verkalýðshreyfingunni að fá tæki til að tryggja að ákveðnir atvinnurekendur geti ekki verið með launafólk í svartri atvinnustarfsemi, fólk sem fer þá á mis við mikilvæg lögbundin réttindi sem verkalýðshreyfingin hefur barist fyrir þannig að þetta frumvarp er til þess fallið að tryggja réttindi og kjör launafólks. Mér finnst óeðlilegt að gera þetta tortryggilegt í ljósi reynslunnar af hruninu. Ég held að við eigum að læra mjög margt af hruni bankanna og gjaldmiðilsins á Íslandi en sá lærdómur á ekki að vera sá að Alþingi Íslendinga vinni gegn baráttu verkalýðshreyfingarinnar til að tryggja réttindi og kjör launafólks á Íslandi.