138. löggjafarþing — 118. fundur,  6. maí 2010.

ferjusiglingar frá Bretlandseyjum til og frá Vestmannaeyjum.

527. mál
[18:23]
Horfa

Flm. (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir tillögu til þingsályktunar um ferjusiglingar frá Bretlandseyjum til og frá Vestmannaeyjum. Ásamt mér eru flutningsmenn að þessari þingsályktunartillögu hv. þm. Eygló Harðardóttir, Vigdís Hauksdóttir, Guðmundur Steingrímsson, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson og einnig Siv Friðleifsdóttir og Gunnar Bragi Sveinsson.

Í tillögunni stendur að Alþingi eigi að fela samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra að hafa forgöngu um að kanna til hlítar möguleika á ferjusiglingum frá Bretlandseyjum til Vestmannaeyja. Í greinargerðinni stendur að þingsályktunartillaga þessi feli það í sér að unnin verði hagkvæmniathugun á ferjusiglingum milli Bretlandseyja og Vestmannaeyja og jafnframt að skoðað verði hvort einhverjar reglugerðir eða lagasmíð þurfi til að slíkar siglingar séu gerlegar.

Ástæða þess að þetta er lagt fram er auðvitað fyrst og fremst að í kjölfar opnunar nýrrar Landeyjahafnar munu vegalengdir og ferðatímar milli lands og Eyja styttast og tíðni ferða aukast. Þá opnast gríðarlegir möguleikar í flutningastarfsemi, m.a. með því að nýta höfnina í Heimaey sem millilandahöfn en hún er mjög góð höfn og getur tekið við stórum skipum. Einnig mætti nefna, þótt það standi ekki í þessari greinargerð og sé ekki efni þingsályktunartillögunnar, að eins og ég kom inn á fyrr er ástæðan fyrir því að þetta er lagt fram auðvitað opnun Landeyjahafnar og það er verið að vekja athygli á þeim möguleikum sem þá opnast. Þessir möguleikar eru líka til staðar í Þorlákshöfn og kannski ekki síst þegar Herjólfur hættir að sigla þangað.

Nú þegar hafa flutningaskip á vegum stóru skipafélaganna viðkomu í Vestmannaeyjum, einkum vegna útflutnings á sjávarafurðum. Með tilkomu Landeyjahafnar aukast möguleikar á út- og innflutningi um Vestmannaeyjahöfn til hagsbóta fyrir inn- og útflytjendur á Suður- og Austurlandi og sunnanverðu Reykjanesi, og reyndar á Íslandi öllu. Mikilvægt er að kanna til hins ýtrasta þá möguleika sem aukin umsvif í Vestmannaeyjum geta boðið upp á.

Rétt er að nefna, frú forseti, að ferjan Norræna siglir til Austfjarða, til Seyðisfjarðar, og hefur gert um langt árabil. Hér er auðvitað ekki talað fyrir því að taka verkefni frá þeim siglingum, þetta er nýsköpun, nýir markaðir og auknir möguleikar, og Norræna mun eftir sem áður standa vel fyrir sínu.

Milli Vestmannaeyja og Skotlands eru aðeins um 600 sjómílur og á 20 sjómílna hraða, sem er siglingahraði Norrænu til að mynda, tekur sigling á milli þessara staða aðeins um 30 klst. Þá eru einnig til úthafsferjur sem ná enn meiri hraða og raunhæft er að ætla að yfir sumartímann geti siglingatími ferju milli Vestmannaeyja og Skotlands verið allt niður í 20 klst., eða sem næst sólarhring. Ljóst er að ef útgerðir í Vestmannaeyjum og á Reykjanesi, og reyndar um allt land austur um, hafa aðgang að slíkum samgöngum aukast möguleikar á útflutningi sjávarafurða og ferskra matvæla á borð við landbúnaðarafurðir til mikilla muna. Þær verða þá samkeppnishæfar við flugsamgöngur sem og aðra hefðbundna skipafélagaflutninga. Í því sambandi er rétt að minna okkur öll á að við búum í landi fákeppni þar sem fáir aðilar hafa verið á þessum markaði um árabil og samkeppni því erfið. Í kjölfar kreppunnar og þeirrar endurreisnar sem menn horfa til er það kannski svolítið uggvænlegt að í fákeppninni geti falist möguleikar fyrir flutningafélög að leggja nokkuð ríflega á þannig að landsmenn þurfi að greiða upp tap hrunsins á tiltölulega fáum árum með dýrari flutningum en ella ætti að vera. Hér opnast möguleiki til frekari samkeppni á þessu sviði.

Ekki einasta eru miklir möguleikar fólgnir í vöruflutningum milli Evrópu og Íslands þessa leið heldur fengju ferðamenn á eigin bílum eða á eigin vegum nýjan valkost bæði í styttri og lengri ferðum til Íslands. Hér er um nýsköpun að ræða, farið er inn á nýja markaði, ferðaþjónustu og flutning á fólki sem kæmi hingað keyrandi á eigin bílum. Við þekkjum það sjálf að ef við ættum þess kost að fara í nokkurra daga ferð á okkar eigin bíl mundum við frekar gera það ef þessi möguleiki væri opinn. Lykillinn að því er að það taki ekki svo langan tíma að sigla milli Íslands og Evrópu.

Í sambandi við þessar siglingar er líka rétt að nefna að siglt yrði til Norður-Skotlands, hvort sem er Aberdeen eða bæja eins og Oban sem eru enn nær. Það þyrftu flutninga- eða ferjufyrirtækin sjálf þó að skoða, við gerum það ekki í þessari tillögu. Markaðssvæðið er í raun öll Evrópa þar sem nægar tengingar eru um Bretland, þar á meðal ferjusiglingar til meginlands Evrópu. Þannig gæti opnast raunverulegur möguleiki á að fara á eigin bíl frá Íslandi til meginlands Evrópu með því að aka í gegnum Bretland. Nær yrði þó markaðssvæðið Skotland með rúmlega 5 milljónir íbúa og það er áhugavert að auka samskipti þar á milli, bæði fyrir okkur og Skota.

Vinna þarf verkefnið með heimamönnum í Vestmannaeyjum, sveitarstjórninni og fleiri aðilum. Eins ef við tækjum höfnina í Þorlákshöfn inn þyrfti að skoða að taka sveitarstjórnina í Ölfusi með líka. Á báðum þessum stöðum eru uppi áform um byggingu stórskipabryggju eða hafnar, til að mynda stórskipakants í Eyjum, og áform um ferjusiglingar milli Eyja og Skotlands gætu styrkt slíkar framkvæmdir verulega. Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið þarf að láta gera hagkvæmniúttekt á slíkum siglingum samhliða því að tryggja að ekki séu hindranir í stjórnsýslunni. Þá þarf að gera markaðsgreiningu og kanna hvort skipafélög, innlend sem erlend, hafi áhuga á að koma inn á þennan markað. Einnig þarf að vinna úr því með hvaða hætti sé eðlilegast að standa að slíkum siglingum til að tryggja öruggar siglingar, eðlilega samkeppni, nýsköpunarsjónarmið og fleira.

Ferjusiglingar í meira mæli en við þekkjum nú gætu líka orðið að öryggismáli framtíðarinnar. Þegar unnið var að þessari þingsályktunartillögu fyrr í vetur sáum við auðvitað ekki fyrir eldgos sem hefði veruleg áhrif á flugsamgöngur en engu að síður var það sett hér inn að t.d. hefðu sumir spáð því að við Kötlugos gætu flugsamgöngur legið niðri í langan tíma í meira eða minna mæli, mánuði eða ár í versta falli. Þá væru ferjusiglingar milli Íslands og Bretlandseyja ákaflega mikilvægar til að koma nauðþurftum til Íslands og útflutningsvörum okkar, m.a. fiski, á markaði erlendis, sem og að halda uppi ferðamannaþjónustu. Við höfum séð það núna í kjölfar gossins í Eyjafjallajökli að þrátt fyrir að það sé kannski ekki eins stórfenglegt eins og við höfum stundum rætt um að Kötlugos gæti orðið hefur það valdið verulegu tjóni hér á landi og einnig verulegri röskun á flugsamgöngum í allri Evrópu og jafnvel heiminum. Því held ég að það sé ákaflega mikilvægt, og kannski enn mikilvægara en ég gerði mér grein fyrir þegar við ræddum þennan möguleika sem fyrst og fremst snerist um að varpa kastljósinu á nýja og aukna möguleika í kjölfar opnunar Landeyjahafnarinnar, að hér er komið tækifæri eða nauðsynlegt öryggistæki. Við þurfum að skoða alvarlega hvort ekki þurfi hreinlega að tryggja reglulegar siglingar hingað, eins og á fyrstu öldum landnáms, til þess að geta haldið uppi eðlilegri starfsemi í landinu og flutt inn og út vörur óháð því hvort flugsamgöngur skerðist að einhverju leyti um lengri eða skemmri tíma. Við vonum þó auðvitað að svo verði ekki og að því gosi sem nú stendur yfir ljúki sem fyrst því það hefur valdið fólki nægilegu tjóni.

Ég ætlast til að þessi þingsályktunartillaga fari væntanlega til samgöngunefndar til umfjöllunar og umsagnar og vonast til að menn flýti því aðeins að fara yfir þetta, ekki síst í ljósi þessa öryggisþáttar í sambandi við ferjusiglingarnar.