138. löggjafarþing — 120. fundur,  10. maí 2010.

fyrirkomulag óundirbúinna fyrirspurna.

[15:35]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Frú forseti. Ég kem upp til að gera athugasemd við fundarstjórn forseta. Það hefur reyndar komið fyrir áður í þingsal að við þingmenn höfum gert athugasemdir við fundarstjórn forseta þegar liðurinn óundirbúnar fyrirspurnir til ráðherra er á dagskrá. Ég held að þetta sé í þriðja sinn sem ég kemst ekki að vegna þess hvernig frú forseti ákveður að raða upp fyrirspurnum. Við höfum áður bent á að það sé að mörgu leyti óeðlilegt þegar samflokksmenn stjórnarflokkanna spyrja ráðherra spurninga (Gripið fram í.) út í eitt og annað þótt allir hafi jafnan rétt til að tala í ræðustól.

Ég hafði í hyggju að minnast á að þrátt fyrir að ríkisstjórnin hafi átt langan fund um stjórnsýslu og ráðherrastóla í gær séu enn þá náttúruhamfarir í landinu. Ég ætlaði að spyrja ráðherra, af því að það er orðið mjög brýnt að taka ákvarðanir um einstaka hluti, hvað þeim málum líður (Forseti hringir.) en því miður komst ég ekki að vegna fundarstjórnar forseta (Forseti hringir.) og þeim málum er þar af leiðandi ósvarað.