138. löggjafarþing — 121. fundur,  11. maí 2010.

störf þingsins.

[13:56]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S):

Virðulegi forseti. Við skulum ekki láta það gerast hér að við förum að rífast vegna umræðunnar um það hvort við rífumst of oft. [Hlátur í þingsal.] (Gripið fram í.) Ég held að það sé sannarlega breið samstaða um það á þinginu að ýmislegt megi laga eins og t.d. varðandi þingsköpin. Þau hafa verið í þróun og hafa tekið breytingum á undanförnum árum og ég hygg að við séum flest sammála um að við getum gert breytingar sem gera þinginu kleift að veita framkvæmdarvaldinu ríkara aðhald. Sem betur fer flýgur hér sjaldan skóbúnaður eða húsbúnaður um salinn af reiði en við tökumst oft á og ég held að í seinni tíð höfum við fyrst og fremst tekist á vegna þess að hér hafa verið stór mál á dagskrá sem lítið samráð hefur verið haft við stjórnarandstöðuna um. Stundum er mönnum misboðið og þá hafa menn rétt á því að koma hingað upp þó að það hvessi aðeins í salnum.

Ég kvaddi mér reyndar ekki hljóðs til að taka þátt í þessari umræðu heldur til að vekja athygli á öðru vegna þess að hér hefur rannsóknarskýrslan verið til umræðu og viðbrögð þingsins undir þessum dagskrárlið. Ég vil þá leyfa mér að minna á skýrslu sem utanríkismálanefnd hefur lagt inn til forsætisnefndar um það hversu mikilvægt það er að þingið breyti vinnubrögðum sínum í Evrópusambandsmálunum, þ.e. þeim málum sem koma í gegnum samninginn um Evrópska efnahagssvæðið frá sameiginlegu nefndinni. Í skýrslunni eru dregin fram dæmi þess að við innleiðum hér iðulega Evrópulöggjöf án þess að laga hana að íslenskum aðstæðum. Að mati skýrsluhöfunda er það ein af orsökum þess sem hér gerðist. Við höfum ekki lagað Evrópulöggjöfina að íslenskum aðstæðum en það er oft svigrúm til þess samkvæmt þeim reglum sem okkur ber að taka upp á grundvelli EES-samningsins.

Einmitt um þetta atriði er fjallað í skýrslu utanríkismálanefndar sem hefur núna legið allt of lengi hjá forsætisnefnd án þess að koma hingað inn í þingið í formi breyttra (Forseti hringir.) reglna um þetta efni.