138. löggjafarþing — 122. fundur,  12. maí 2010.

kynjuð hagstjórn.

418. mál
[15:05]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Ég þakka hv. fyrirspyrjanda fyrir að hreyfa þessu máli og fagna því að tímaplön okkar skuli loksins falla saman. Það er við bæði að sakast svo að það sé tekið fram, ekki bara þann sem hér stendur, að við höfum ekki verið á sama stað á sama tíma til að eigast við í fyrirspurnatíma. En ég trúi að við eigum það sameiginlegt að hafa áhuga á þessu viðfangsefni.

Hvað varðar stöðu mála varðandi fjárlagagerð fyrir síðasta ár og fjárlög ársins í ár þá er því til svara að það var í lok apríl sem sá sem hér stendur skipaði verkefnisstjórn um stefnumótun og undirbúning að kynjaðri hagstjórn og fjárlagagerð og er það í samræmi við yfirlýsta stefnu núverandi ríkisstjórnar um að við endurreisn íslensks efnahagslífs og uppbyggingu faglegra stjórnunarhátta verði jafnrétti kynjanna haft að leiðarljósi. Hlutverk verkefnisstjórnarinnar var að vinna álit og tillögur um aðgerðir til að innleiða leikreglur kynjaðrar hagstjórnar. Verkefnisstjórnin tók til starfa í maí og þá lá að sjálfsögðu fyrir að undirbúningur fjárlagagerðar fyrir árið 2010 var löngu hafinn og rammar komnir fram. Í ljósi þess þrönga tímaramma sem fjárlagaferlinu er skorinn var útséð um að ákvarðanir í fjárlögum ársins 2010 mundu geta byggt almennt á aðferðafræði kynjaðrar fjárlagagerðar svo að neinu næmi að minnsta kosti.

Til undirbúnings árinu 2011 var hins vegar ákveðið að helga kynjaðri hagstjórn sérstakan kafla í fylgiriti frumvarpsins fyrir árið 2010, samanber stefnu og horfur á bls. 43, og það kom í hlut verkefnisstjórnarinnar að annast um þau skrif. Þar er í stuttu máli reynt að útskýra hvað felst í kynjaðri fjárlagagerð og koma málinu á rekspöl.

Hvað varðar seinni spurninguna, um innleiðinguna fyrir fjárlög ársins 2011, skilaði verkefnisstjórnin 1. mars sl. áfangaskýrslu um stöðu mála í vinnu sinni og þau verkefni sem hún sæi fyrir sér fram undan. Samhliða því kom út sú ágæta handbók sem hv. þingmaður vék að. Þar er að finna mjög góða leiðsögn um það hvernig þessi aðferðafræði er, hvernig þetta er hugsað, hugmyndafræðin að baki, og í hvaða áföngum er hægt að innleiða þessa aðferðafræði. Það var ein af megintillögum verkefnisstjórnarinnar í áfangaskýrslunni að fjármálaráðherra skyldi óska eftir því við tiltekna samráðherra, reyndar alla, að hvert ráðuneyti tilnefndi eitt viðfangsefni eða stofnun á sínu ábyrgðarsviði sem tæki að sér tilraunaverkefni í kynjaðri fjárlagagerð við gerð fjárlaga fyrir árið 2011. Þetta hefur verið gert með formlegu bréfi þar sem óskað var eftir því að tillögur þessa efnis lægju fyrir í síðasta mánuði. Af þessu leiðir að fyrstu verkefni ríkisins í kynjaðri hagstjórn eða fjárlagagerð munu að óbreyttu sjá dagsins ljós í óbreyttri fjárlagagerð ársins 2011 í formi slíkra valinna tilraunaverkefna. Það er þá á hendi hvers og eins ráðherra að ákveða hvar skynsamlegt sé að bera niður og byrja og mun verkefnisstjórnin veita ráðgjöf til þeirra sem í hlut eiga við mótun verkefna og framkvæmd. Það má taka það fram að þessi verkefnisstjórn vinnur ólaunað að verkefnum sínum.

Það er ljóst að veita þarf aðilum sem taka þátt í þessum tilraunaverkefnum aðstoð og fræðslu varðandi það hvernig best sé að nálgast verkefnið. Hinn 2. mars sl., samhliða því að áfangaskýrsla verkefnisstjórnar um kynjaða fjárlagagerð var lögð fram í ríkisstjórn, samþykkti ríkisstjórnin þá tillögu verkefnisstjórnarinnar að ráðinn yrði sérfræðingur tímabundið í hálft til eitt ár til að sinna hlutverki leiðbeinenda við tilraunaverkefnið og það skýrir það að viðkomandi staða var ekki auglýst eins og einhverjir hafa verið mjög uppteknir af. Það er einfaldlega vegna þess um tímabundna verkefnaráðningu í þetta afmarkaða viðfangsefni er að ræða. Til verksins réðst hin mætasta kona, Katrín Anna Guðmundsdóttir, sem er master í viðskipta- og markaðsfræðum og er þar til viðbótar að ljúka námi í kynjafræði frá Háskóla Íslands. Kostnaður vegna þessarar sérfræðivinnu, sem er til að aðstoða ráðuneytin við innleiðingu þessarar aðferðafræði og til að velja með þeim eða aðstoða þau við þau tilraunaverkefni eða þær tilraunastofnanir sem núna munu í fyrstu umferð innleiða þessa aðferðafræði, skiptist á þau þrjú ráðuneyti sem að málinu koma sérstaklega, þ.e. fjármálaráðuneytið, forsætisráðuneytið og félags- og tryggingamálaráðuneytið sem fer með jafnréttismál.

Það er mikilvægt að leggja á það áherslu að innleiðing kynjaðrar fjárlagagerðar er ekki eitthvað sem menn hrista fram úr erminni á einu fjárlagaári. Hér er um langt lærdómsferli að ræða og þannig hefur það verið annars staðar þar sem menn eru lengra á veg komnir en við. Með kynjaðri fjárlagagerð eru íslensk stjórnvöld að takast á hendur verkefni sem kallar á umbyltingu í hugsun og verki og þar með umbreytingu á því hvernig fjárlög eru mótuð og framkvæmd. Hjá Finnum, frændum okkar, tók verkið tíu ár en við viljum setja markið hátt og miða við að eftir fimm ár verði aðferðafræði kynjaðrar hagstjórnar óaðskiljanlegur hluti af fjárlögum ár hvert.