138. löggjafarþing — 122. fundur,  12. maí 2010.

vistvæn innkaup.

428. mál
[15:28]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Eygló Harðardóttir) (F):

Hæstv. forseti. Fyrir nokkrum dögum var hér utandagskrárumræða að mínu frumkvæði við hæstv. umhverfisráðherra um forgangsröðun ríkisstjórnarinnar í umhverfismálum. Það sem kom fram í orðum ráðherrans var það að umhverfismál væru málaflokkur hinna stóru áætlana. Fyrrverandi umhverfisráðherra, hv. þm. Siv Friðleifsdóttir, kom hingað upp í ræðustól líka og tók mjög undir það að það væri mjög mikilvægt í umhverfismálum að horfa þverpólitískt yfir alla málaflokkana um það hvernig hægt væri að ná árangri í umhverfismálum.

Ég benti líka á þar að það sem mér fyndist kannski hafa einkennt umræðu hér á Íslandi í umhverfismálum á undanförnum árum væri það sem ég vildi miklu frekar kalla náttúruvernd en endilega umhverfisvernd í sjálfu sér þar sem við erum að fókusera mjög mikið á mjög takmarkaðan hluta af þessum risastóra málaflokki.

Ég held að það sé mjög mikilvægt fyrir okkur þingmennina að huga svolítið að því sem kannski liggur okkur aðeins nær, eins og við vorum að ræða hér varðandi hagstjórn, varðandi fjárlagagerð, hvernig við getum notað þau stjórntæki sem við erum með til þess að innleiða vistvænni eða umhverfisvænni hugsun inn í samfélagið. Það var ástæðan fyrir því að ég spurði sérstaklega um fjármálaráðuneytið því að fjármálaráðuneytið er með mjög stóran hluta af þessu undir hjá sér sem kemur raunar ekki inn á borð umhverfisráðherra. Það er náttúrlega innkaupastefna ríkisins og ég veit ekki til þess að ný innkaupastefna hafi verið samþykkt hjá ríkisstjórninni frá því að ráðherrann tók við. Það er starfsmannastefnan, hvernig er hægt að innleiða betur gangvart starfsmönnum að taka upp þessa hugsun. Svo má ekki gleyma því, af því að mér skilst að það sé líka stofnun undir ráðuneytinu sem heitir Framkvæmdasýsla, að þar sé líka haft í huga þegar er verið að fara í framkvæmdir að hafa vistvæn sjónarmið mjög í huga. Ég ítreka því það sem ég benti á að kannski sé kominn tími til að gefa út nýjan bækling með næstu fjárlögum sem heitir Kynjuð og vistvæn hagstjórn.