138. löggjafarþing — 122. fundur,  12. maí 2010.

samningsmarkmið varðandi landbúnað í viðræðum við Evrópusambandið.

565. mál
[15:45]
Horfa

Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Það er svolítið kostulegt þegar hv. þingmenn, eins og hv. þm. Pétur H. Blöndal, spyr hvort hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra sé þingmaður fyrir Vinstri græna. (PHB: Hann brýtur eiginlega öll loforð þeirra.) Það vita allir að í stjórnarsáttmálanum er sérstakt ákvæði um aðildarumsókn að Evrópusambandinu. Ég hélt að þingmenn almennt vissu að stjórnarsáttmálar hafa ákveðið gildi, eiga að hafa það.

Ég vildi gera stutta athugasemd við það hvernig hæstv. ráðherra fer í að svara þeirri spurningu sem komið hefur fram. Hæstv. ráðherra kom og las heilmikið upp úr nefndaráliti sem við erum löngu búin að skoða í þinginu á fyrri stigum og endaði svo með því að segja: Nú eru línur að fara að skýrast en ég kem að því í seinna svarinu. Við þingmenn getum alls ekki, þó að við vildum gjarnan tala um það sem er að gerast, ef það er eitthvað sérstakt, tekið þátt í þeirri umræðu af því að það kom ekkert fram í svari hæstv. ráðherra. Ég geri athugasemd við það þegar hæstv. ráðherrar koma málum í þann farveg að þingmenn geta ekki brugðist við, ekkert nýtt kemur fram. Mér finnst þetta svolítið sérstakt og mér finnst þetta reyndar svolítið alvarlegt.