138. löggjafarþing — 123. fundur,  14. maí 2010.

þingsályktunartillaga um ákæru á hendur mótmælendum.

[10:38]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Frú forseti. Ég hef áður sagt að það ætti að vera partur af því sáttaferli sem við þurfum á að halda í þessu samfélagi að nímenningunum væru gefnar upp sakir. Nú er þessi tillaga hins vegar komin hingað inn og samkvæmt hefð og venju er það forseti þingsins sem úrskurðar um það hvort mál séu þingtæk. Hann hefur úrskurðað það svo að þetta mál sé tækt til umræðu í þinginu. Hv. þingmenn sem hér hafa talað hafa fært ýmis rök gegn því. Ég tel hins vegar að þingið hafi, ef hér hafa orðið einhver glöp, ákveðið vopn í þessu máli, þ.e. þetta mál fer til nefndar og þar gefst tækifæri til að koma fram þeim mótbárum við framlagningu málsins sem hér hafa verið lagðar fram. Þingið hefur þannig öll tök á því að koma að málinu og leiða fram rök sem hugsanlega styðja það sem formaður Sjálfstæðisflokksins (Forseti hringir.) sagði áðan.