138. löggjafarþing — 123. fundur,  14. maí 2010.

utanríkis- og alþjóðamál.

611. mál
[10:52]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Frú forseti. Ég hef lagt fyrir þingið skýrslu mína um störf utanríkisráðuneytisins og stefnuna í utanríkismálum. Eins og þingmenn vita er þessi skýrsla þykk og ítarleg og það er í stíl við þá staðreynd að utanríkismál hafa sjaldan verið rædd jafnmikið og á því ári sem er liðið frá síðustu skýrslu. Þar ber vitaskuld hæst tvö mál, ESB og Icesave. Það síðara er erfiðasta milliríkjadeila sem við Íslendingar höfum glímt við frá upphafi lýðveldisins. Sú deila sýndi að það var mikilvægt að hafa öfluga utanríkisþjónustu. Ég tel að það hafi verið ómetanlegt á þeim tíma þegar deilan spratt upp að geta virkjað sendiráðin strax til þess að tala okkar máli í samskiptum við umheiminn.

Það munaði líka um þjónustuna í upphafi kreppunnar þegar Íslendingar reru lífróður til að ljúka sinni fyrstu efnahagsáætlun við AGS. Þjónustan lagðist líka öll á árar þegar Íslendingar unnu það kraftaverk að tryggja fjármögnun við síðustu endurskoðun áætlunarinnar í harðri andstöðu sterkra þjóða og án þess að Icesave væri lokið.

Því segi ég þetta, frú forseti, að stundum er sagt að utanríkisþjónustan kosti mikið en, hv. þingmenn, hún skilar árangri. Ég get sagt það án þess að blikna að í erfiðleikum síðustu ára hef ég verið stoltur af mínu fólki. Ég held líka að allir hafi verið stoltir af hennar hlut þegar Íslendingar sendu á einni nóttu björgunarsveit til Haítí. Þó að við Íslendingar værum fjærstir vettvangi vorum við fyrstir á svæðið.

Utanríkisþjónustan á við allar aðstæður að vera skjöldur fyrir Ísland en hún gerir sín mistök alveg eins og bent var á í rannsóknarskýrslunni um aðdraganda hrunsins, en af þeim lærum við. Hún á að geta brugðist við fyrirvaralausum áföllum og eitt af því sem rannsóknarnefndin benti skýrt á er að stjórnsýslan verður að gæta þess að utanríkisþjónustan sé partur af öllum viðbragðsáætlunum gegn hvers konar aðsteðjandi vá.

Við Íslendingar þurfum að sýna heiðarleika, áreiðanleika og stöðugleika í samskiptum við aðrar þjóðir. Við þurfum stöðugt að rækta tengsl á öllum stigum, traustið hefur okkur aldrei verið eins mikilvægt og núna. Hlutverk utanríkisþjónustunnar og utanríkisstefnunnar er að byggja upp þetta traust í samskiptum við önnur ríki. Þannig endurheimtum við orðspor okkar, aðeins þannig.

Frú forseti. Alþingi tók í fyrrasumar ákvörðun um að fela ríkisstjórn að sækja um aðild að Evrópusambandinu og leggja niðurstöður samninga í þjóðaratkvæðagreiðslu. Það var lýðræðisleg ákvörðun sem var tekin í kjölfar ítarlegrar umræðu undanfarin ár í samfélaginu og eftir rækilega umræðu á Alþingi. Niðurstaðan naut þverpólitísks stuðnings úr öllum flokkum á Alþingi. (Gripið fram í: Var kattasmölun?)

Við höfum síðan stigið eitt skref í einu, og stigið þau varlega. Okkar litla en hnitmiðaða stjórnsýsla uppskar lof fyrir vönduð vinnubrögð, ekki síst í tengslum við svör við spurningum framkvæmdastjórnarinnar. Eins og kunnugt er mælti framkvæmdastjórnin með viðræðum við Ísland, álit hennar var mjög jákvætt, Ísland fékk mjög háa einkunn. Það var á erfiðum tímum mikilvæg traustsyfirlýsing við okkur Íslendinga.

Þingið hefur lagt mér á herðar þá sjálfsögðu skyldu að hafa sem ríkast samráð um framvindu málsins. Það hef ég kappkostað. Málið er vissulega umdeilt, en um skipan aðalsamningamanns, samninganefndarinnar sjálfrar og samningahópanna 10 ríkir góð sátt, ekki síst við hagsmunasamtökin sem samkvæmt þeim vegvísi sem Alþingi fól mér að stýra eftir koma mjög sterkt að ferlinu. Aðalsamningamaður okkar, Stefán Haukur Jóhannesson sendiherra í Brussel, er reyndasti samningamaður Íslands. Hann er eftirsóttur til að leiða til lykta torveld vandamál millum annarra ríkja og nýtur mikillar virðingar heima og erlendis. Ég tel að okkur Íslendingum sé sérstakt happ að eiga slíkan mann til að leiða jafnvandasamt verk og samninga um aðild að Evrópusambandinu.

Það er mikilvægt að hafa umsóknarferlið eins opið og gagnsætt og hægt er, ekki síst til að eyða tortryggni, og misskilningi sem jafnvel örlar stundum á hjá hv. þingmönnum og ég segi ekki jafnvel líka hjá bestu mönnum í röðum hæstv. ráðherra. Þess vegna birti ég á sínum tíma á netinu allar spurningar framkvæmdastjórnarinnar og síðan svör stjórnsýslunnar jafnóðum og þau voru í mínum höndum.

Í sama anda hef ég ákveðið að fundargerðir samninganefndar og samningahópa verði birtar opinberlega. Samningsafstaða Íslands í einstökum málum verður opinber þegar hún liggur fyrir, og önnur gögn svo fremi samningafólkið okkar telji það ekki skaða samningshagsmuni Íslands eins og þeir eru á hverjum tíma.

Ég tel líka rétt að veita Íslendingum beina hlutdeild í umsóknarferlinu með því að opna gagnvirka vefsíðu þar sem borgarar geta í senn haft skoðanir á einstökum málum, en jafnframt haft reglulega samræðu við aðalsamningamanninn, sérfræðinga, samninganefndarmenn og eftir atvikum ráðherrann sjálfan. Rafræn stjórnsýsla er á fleygiferð og við Íslendingar eigum að nýta kosti hennar í þessu mikilvæga máli. Ég hef sömuleiðis farið þess á leit við aðalsamningamanninn að hann haldi á næstunni fundi um allt land til að upplýsa þá sem hafa áhuga á ferli málsins um næstu skref. Evrópumálin snerta okkur öll og það er sjálfsagt að menn fái það sem er að gerast hverju sinni beint í æð og þá beint af kúnni.

Frú forseti. Ég dreg enga dul á að ég lít á Evrópumálin sem grundvöll í endurreisn Íslands. Það hefur aldrei verið ríkari ástæða en einmitt nú að láta reyna á hvað falist getur í aðildarsamningi.

Við þurfum stöðugleika, við þurfum fjárfestingar, við þurfum að skapa störf, við þurfum að byggja atvinnu- og efnahagslífi þjóðarinnar sem allra traustasta umgjörð. Evrópusambandið er umdeilt en ég tel að það sé besti kostur Íslendinga til að ná þessum markmiðum sem fyrst. Evrópusambandið hefur, þegar allt kemur til alls, náð veigamiklum árangri í að tryggja stöðugleika með lágri verðbólgu, lágum vöxtum, heilbrigðu viðskiptaumhverfi og viðvarandi hagvexti.

Ég tel að eitt af því sem við þurfum að einbeita okkur að sé einmitt að rjúfa þann vítahring verðbólgu, vaxta og verðtryggingar sem er að sliga íslenskar fjölskyldur og þekkist hvergi í Evrópu nema hér. Verðtryggingin sem hefur hækkað lán allra íslenskra fjölskyldna upp úr öllu valdi er séríslenskt fyrirbæri. Við losnum við það með Evrópu. Kollsteypuhagkerfið er líka sjálfskaparvíti sem við getum losnað við með Evrópu. (Gripið fram í.)

Frú forseti. Frá mínum bæjardyrum séð snýst aðild ekki síst um það að skapa störf. Í febrúar á þessu ári voru um 15.000 manns atvinnulausir. Á næstu árum er gert ráð fyrir að fjölga muni á vinnumarkaði um 2.000–3.000 manns á ári. Á næstu tíu árum þurfum við þess vegna að skapa 35.000 störf ef vel á að vera.

Atvinnulífið hefur sjálft bent á að nauðsynleg fjölgun starfa muni líklega ekki verða í hinum hefðbundnu greinum, sjávarútvegi og landbúnaði, því að með aukinni framleiðni og hagræðingu fækkar þar störfum. Þannig hefur t.d. mjólkurbændum sem staðið hafa sig vel fækkað um 50% frá árinu 1994, á sama tíma og framleiðsla þeirra jókst um ríflega 20%.

Atvinnusköpun á Íslandi mun því hvíla á herðum annarra atvinnugreina og verða í iðnaði, ferðaþjónustu og ekki síst í nýsköpunar- og sprotageiranum. Þar þurfa störfin að verða til, sem tryggja hóflegan hagvöxt og útrýma atvinnuleysi.

Okkur ber skylda til að skapa þessum atvinnugreinum samkeppnishæft rekstrarumhverfi og stöðugleika til að vaxa. Frá mínum bæjardyrum séð snúast Evrópumálin þess vegna um endurreisn Íslands, um langtímastöðugleika í efnahagsmálum, um aukna fjárfestingu á Íslandi, um atvinnu fyrir alla.

Fyrir hagstjórn í framtíðinni, fyrir atvinnulíf í framtíðinni, er líka lykilatriði að við eigum kost á öflugum gjaldmiðli. Ég hef aldrei dregið dul á að ég tel eftirsóknarvert við aðild að með henni opnast leið til að Ísland geti um síðir tekið upp öflugan gjaldmiðil, með sterkan bakhjarl, og um leið horfið frá verðtryggingu, notið lágra vaxta, og miklu meiri stöðugleika en við eigum að venjast. (Gripið fram í: Hvenær?)

Már Guðmundsson seðlabankastjóri lýsti því svo í viðtali að á íslenska hagkerfinu væri hönnunargalli og valið stæði á milli evru með lága vexti og verðstöðugleika og krónu með varanlegum gjaldeyrishöftum. Ég held að við byggjum ekki upp Ísland framtíðarinnar með varanlegum höftum á viðskiptum við útlönd. Þar að auki hefur reynslan sýnt, löngu fyrir kreppu, að sjálfstæð örmynt lítillar þjóðar verður alltaf í hlutverki gómsætrar bráðar í augum hákarla vogunarsjóðanna.

Menn nefndu Grikki áðan frammi í salnum, þeir þekkja þetta í dag jafn vel og við Íslendingar. (Gripið fram í: Það er ekki …) Þeir fóru ekki að leikreglum eins og þeir hafa sjálfir viðurkennt. Þeir tengdu fram hjá en þeir höfðu öflugan bakhjarl, þeir höfðu Evrópusambandið. Þess vegna komast þeir í gegnum brimskaflinn þótt það kosti þá blóð, svita og tár. (Gripið fram í: Og vín.) Það hefði ekki verið ónýtt fyrir okkur Íslendinga að hafa slíkan bakhjarl þegar við, alveg eins og Grikkir, lentum í heimatilbúnum vanda vegna endurtekinna hagstjórnarmistaka. (Gripið fram í: Þú kvartaðir … þá.)

Frú forseti. Það sem verður erfiðast í samningum eru að sjálfsögðu þau málefni sem tengjast sjávarútvegi og landbúnaði. Ég tel hins vegar að það sé hægt að tryggja hagsmuni beggja. Íslenskur sjávarútvegur er í fremstu röð. Samkvæmt reglum Evrópusambandsins á ekkert aðildarríkja tilkall til veiðiheimilda í íslenskri lögsögu. (Gripið fram í: Ekki enn þá.) Í áliti framkvæmdastjórnarinnar kemur líka skýrt fram að ESB gerir ráð fyrir að aðild Íslands hefði þýðingarmikil áhrif á sameiginlegu sjávarútvegsstefnuna. Það gefur a.m.k. mér tilefni til bjartsýni því að sú staðhæfing felur í sér yfirlýsingu um að það sé fullt tilefni fyrir ESB til að taka tillit til stefnu okkar um fiskveiðar. Í þessu ljósi, og ekki síður í ljósi þeirra viðræðna sem ég hef átt við forustumenn helstu sjávarútvegsþjóða ESB, tel ég sterk rök standa til þess að Íslendingar geti meira en haldið sínu í þessum efnum innan Evrópusambandsins.

Frú forseti. Ég eyddi drjúgum parti af minni bernsku á Mýrunum, og gamall Mýramaður er alltaf sveitamaður í hjarta sínu. Ég hef alltaf staðið með sveitunum og ég veit mætavel að margir telja að aðild verði erfið fyrir landbúnað framtíðarinnar. Það þarf ekki að verða. Ég held að margt muni vinna með okkur í samningunum. Ég held að við munum í senn njóta smæðar landbúnaðarins, landfræðilegrar einangrunar og ótvíræðrar sérstöðu

Við vitum t.d. að Finnar náðu sérstökum heimildum fyrir sinn landbúnað, og stuðningur við íslenska bændur rúmast innan þess ramma sem norðurslóðastuðningur í Finnlandi leyfir. Á reynslu Finna getum við líka byggt rök fyrir heimildum sem ganga enn lengra — ef við viljum.

Ég tel líka að í kröfunni um fæðuöryggi felist mjög sterk rök. Ísland liggur víðs fjarri matarkistum heimsins. Í viðsjálli veröld er því engri evrópskri þjóð jafnbrýn nauðsyn á tryggu fæðuöryggi og Íslendingum. Innan Evrópusambandsins er nú vaxandi áhersla á fæðuöryggi borgaranna, það er orðið forgangsatriði. Ég tel að þetta, landfræðileg einangrun og margt annað muni skapa okkur mjög sterka stöðu.

Íslenskur landbúnaður býr líka að einstöku erfðamengi sem hefur hagnýta þýðingu en er jafnframt eftirsóknarvert út frá sjónarmiði líffræðilegrar fjölbreytni. Hann er einangraður, framleiðsla hans er mun fábreyttari en á meginlandinu og allir þessir þættir skapa okkur stöðu í samningum. Núna er verkefni okkar að ná eins góðum samningi og hægt er og það, frú forseti, mun ég gera í samræmi við lýðræðislegan vilja meiri hluta Alþingis. Og ég mun þá glaður lúta þeim úrskurði sem þjóðin að lokum kveður upp og ég veit að Íslendingar munu taka þá ákvörðun sem er best fyrir hagsmuni þeirra, fyrir börnin þeirra og framtíð Íslands.

Frú forseti. Ísland er eina ríkið sem í heild sinni er staðsett á norðurslóðum sem núna fá, vonum seinna, aukið vægi í alþjóðamálum. Það stafar einkum af þrennu: Í fyrsta lagi eru náttúra og vistkerfi norðursins mjög næm fyrir hlýnun andrúmsloftsins og kalla á rækilegt eftirlit. Í annan stað er þar að finna stóran hluta af ónýttum olíu- og gaslindum heimsins. Í þriðja lagi líta menn til þess að skipaleiðir gætu í framtíðinni opnast milli Kyrrahafs, um Norður-Íshafið yfir til Norður-Atlantshafsins.

Ég tel að við Íslendingar þurfum að móta skýra stefnu um hlutverk okkar á þessu svæði, ekki síst til að púkka undir aukinn rétt til þátttöku í pólitískum ákvörðunum sem varða norðurslóðir. Ég tel að stefnan eigi að miðast við eftirfarandi markmið:

Í fyrsta lagi að skipa Íslandi í röð þeirra strandríkja sem eru áhrifamest um þróun mála á norðurslóðum. Það þýðir að litið verði á Ísland sem fullgilt strandríki á norðurslóðum á sama hátt og Kanada, Rússland, Bandaríkin, Noreg og Danmörku fyrir hönd Grænlands.

Í öðru lagi að þróa lagaleg og landfræðileg rök fyrir aðkomu Íslands að ákvörðunartöku um norðrið. Í því efni þarf að byggja á þeirri staðreynd að efnahagslögsagan er innan norðurskautsins í norðri og nær til Grænlandshafs við Norður-Íshafið. Það er því fullkomlega rökrétt að Ísland verði í framtíðinni aðili að öllum alþjóðlegum ákvörðunum sem varða norðurslóðir.

Í þriðja lagi að þróa og afla stuðnings við skilgreiningu á norðurslóðum sem nær bæði yfir norðurskautið og þann hluta Norður-Atlantshafssvæðisins sem tengist því nánum böndum. Þar tel ég að dugi ekki að einblína á þrönga landfræðilega skilgreiningu, heldur beri líka að líta á norðurslóðir sem víðtækt svæði í vistfræðilegum, pólitískum, efnahagslegum og öryggispólitískum skilningi.

Í fjórða lagi að efla og styrkja Norðurskautsráðið sem mikilvægasta samráðsvettvang um svæðið.

Af sjálfu leiðir þá að í fimmta lagi þurfa Íslendingar að standa fast gegn hinu svokallaða fimm ríkja samráði, þ.e. Kanada, Rússlands, Danmerkur, Bandaríkjamanna og Noregs. Slíkur vettvangur grefur undan Norðurskautsráðinu og vinnur þar með gegn hagsmunum annarra, eins og okkar.

Í sjötta lagi að vinna að því að byggt verði á hafréttarsáttmálanum til að skera úr um hugsanlegar deilur í framtíðinni varðandi lögsögu og réttindi á norðurslóðum.

Í sjöunda lagi að stuðla að alþjóðlegum samningum um viðbúnað til eftirlits, björgunar og ekki síst mengunarvarna sem verja hagsmuni Íslands á sviði náttúru, veiða og kolefnavinnslu

Í áttunda lagi að vinna gegn hervæðingu norðurslóða.

Í níunda lagi að taka upp náið samráð og samvinnu við granna okkar í vestri um málefni norðursins. Aukið samstarf okkar og Grænlendinga, m.a. á sviði orkumála, bæði um olíu en líka um framleiðslu á rafmagni, mun gefa báðum aukið vægi, bæði öryggispólitískt og strategískt.

Í tíunda lagi að styðja réttindi frumbyggja á svæðinu.

Þessum sjónarmiðum tel ég að Íslendingar þurfi að lyfta alþjóðlega, og ríkisstjórnin mun m.a. gera það með alþjóðlegri ráðstefnu sem haldin verður á Íslandi innan tíðar.

Frú forseti. Frá lokum kalda stríðsins hefur skilningur á öryggi þjóða tekið miklum breytingum. Í stað þess að byggja eingöngu á hervörnum byggja nú flestar þjóðir í okkar heimshluta öryggisstefnu sína á mun víðfeðmara öryggishugtaki en áður. Það nær ekki aðeins yfir hefðbundnar varnir, heldur tekur í vaxandi mæli til annars konar ógna sem geta steðjað að innra öryggi ríkja. Þetta sjáum við hjá helstu samstarfsþjóðum okkar

Í kjölfar breyttra viðhorfa í okkar heimshluta, og ekki síður brottfarar hersins, er næsta verkefni á sviði varnar- og öryggismála að móta nýja öryggisstefnu fyrir Ísland sem grundvallast á víkkuðu öryggishugtaki eins og það er skilgreint í áhættumatsskýrslunni sem starfshópur undir forustu Vals Ingimundarsonar prófessors bjó til og utanríkisráðuneytið hefur gefið út. Hin nýja stefna þarf að byggjast á þessu víkkaða öryggishugtaki, á borgaralegum gildum og borgaralegum stofnunum, og hún á að sjálfsögðu að taka mið af því sem er eitt helsta sérkenni Íslands í samfélagi þjóðanna, herleysi, og um leið nánu og virku samstarfi við aðrar þjóðir á þeim sviðum sem við teljum best þjóna hagsmunum okkar.

Í þessu sambandi er rétt að rifja upp að ein helsta niðurstaða í áhættumatsskýrslunni var að engar vísbendingar væru um að bein hernaðarógn steðjaði að Íslandi á næstu árum. Það er í samræmi við mat grannþjóða á eigin öryggi. Um þetta hef ég góða ástæðu til að telja að hægt sé að skapa breiða sátt meðal Íslendinga og líka hér á Alþingi, en vitaskuld verður það ekki gert nema allir flokkar komi að þeirri stefnumótun í þverpólitísku samstarfi.

Ég vil því upplýsa Alþingi um að ég stefni að því fyrir árslok að leggja fyrir þingið tillögu um þverpólitíska stefnumótun um nýja öryggis- og varnarstefnu fyrir Ísland sem byggir á þeim grunni sem ég hef hér reifað. Ég tel að það sé grundvallaratriði fyrir litla þjóð að sem mestur friður ríki um öryggis- og varnarmál.

Frú forseti. Ég hef í þessari ræðu kosið að nota tímann til að fara ítarlega yfir þau mál sem mestu varða í dag um utanríkisstefnuna, bæði í samtíð og framtíð, og sömuleiðis skýrt rækilega hugsun mína um mál þar sem miklu skiptir að við stingum út nákvæma stefnu til lengri tíma.

Það eru vitaskuld mörg önnur mikilvæg viðfangsefni sem ég hefði viljað fjalla um eins og lög um Íslandsstofu; bætt umgjörð um þróunarsamvinnu, mannréttinda-, mannúðar- og jafnréttismál, mikilvægi þess að stuðla að jafnrétti kynjanna og réttindum kvenna sem ég hef hvarvetna lagt mjög mikla áherslu á alls staðar þar sem ég hef komið í alþjóðlegu starfi. Þessi og mörg önnur eru ítarlega reifuð í þessari þykku skýrslu sem nú liggur á borðum þingmanna. Ég er viss um að okkur gefst tækifæri til að ræða þau og önnur í þaula hér í dag.

Ég vil svo að lokum þakka utanríkismálanefnd sérstaklega fyrir mjög gott samstarf. Ég hef komið 10 sinnum til fundar við nefndina, starfsmenn mínir 35 sinnum (Forseti hringir.) á þessu ári frá því að ég varð ráðherra sem er einsdæmi á síðari árum og er til marks um einbeittan vilja minn til að eiga gott samstarf við nefndina.