138. löggjafarþing — 123. fundur,  14. maí 2010.

utanríkis- og alþjóðamál.

611. mál
[11:47]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Frú forseti. Ég vil byrja á því að þakka fyrir þá skýrslu sem hér liggur fyrir um utanríkis- og alþjóðamál frá hæstv. utanríkisráðherra. Mér finnst skýrslan vera greinilega fram sett, hún fer yfir öll helstu atriði í utanríkismálum okkar og það er vel. Ég vil taka undir orð hv. þm. Bjarna Benediktssonar og færa þakkir til starfsfólks utanríkisráðuneytisins fyrir störf þeirra í okkar þágu við að mörgu leyti erfiðar aðstæður í samskiptum okkar við erlendar þjóðir að undanförnu.

Það er augljóslega ekki hægt að fara yfir alla kafla þessarar ítarlegu skýrslu í stuttum umræðum en ég vil þó tæpa á nokkrum mikilvægum þáttum. Ég vek athygli á þéttu og nánu samstarfi utanríkisráðuneytisins við utanríkismálanefnd. Fulltrúar ráðuneytisins hafa oft komið á fundi nefndarinnar og ráðherrann alloft. Vissulega eru einhverjir sem hefðu gjarnan viljað hafa samráðið enn þá meira en að mínu mati höfum við átt gott samstarf við utanríkisráðuneytið í utanríkismálanefnd.

Í því efni er rétt að minna á 24. gr. þingskapalaga þar sem segir, með leyfi forseta:

„Utanríkismálanefnd skal vera ríkisstjórninni til ráðuneytis um meiri háttar utanríkismál enda skal ríkisstjórnin ávallt bera undir hana slík mál jafnt á þingtíma sem í þinghléum.“

Ég vil byrja á því að beina máli mínu að norðurslóðamálefnum. Að mínu mati eiga norðurslóðamálefnin að vera forgangsmál og viðfangsefni svæðisins verður að leysa á grundvelli gildandi alþjóðasamninga, alþjóðastofnana og svæðasamstarfs. Í mínum huga er mikilvægt að leggja áherslu á að vernda viðkvæmt lífríki norðurslóða, sjálfbæra nýtingu auðlinda og aukið samstarf á Norðurlöndum um viðbúnað gegn umhverfisvá og slysum í Norðurhöfum, leit og björgun. Um þetta mál er sérstaklega fjallað í samstarfsyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar. Ég tel að fyrir Ísland felist margvísleg sóknarfæri hvað varðar áherslur á norðurslóðirnar, ýmiss konar þjónusta, iðnaður, samgöngur, menntun, vísindi o.fl. og hér má gjarnan minna á norðurslóðamiðstöðina sem er ein fremsta miðstöð í heimsskautarétti sem er staðsett hér á landi. Það er hiklaust rétt að nýta sér þessi sóknarfæri.

Ég fagna líka áherslum íslenskra stjórnvalda hvað varðar framtíðarstefnu um mál norðurslóða sem hæstv. utanríkisráðherra rakti ágætlega í máli sínu hér áðan. Ég lýsi yfir stuðningi við þær áherslur í öllum meginatriðum. Ég tel mikilvægt að Ísland taki fullan þátt í samstarfi ríkja um norðurslóðir því að þetta er víðtækt svæði í vistfræðilegum, pólitískum og efnahagslegum skilningi. Við þurfum að mínu viti að auka samstarf okkar við ríki sem koma að norðurslóðamálefnum, Bandaríkin, Kanada og Rússland, um þessi mál ásamt samstarfi við hin Norðurlöndin að sjálfsögðu.

Þá vík ég máli mínu að umsókninni um aðild að Evrópusambandinu. Við gerum okkur öll grein fyrir því að það eru skiptar skoðanir í samfélaginu um ágæti þess að við séum nú í umsóknarferli. Alþingi samþykkti eins og kunnugt er í júlí í fyrra að fela ríkisstjórninni að sækja um aðild að Evrópusambandinu og í kjölfarið yrði samningur lagður í dóm kjósenda. Stuðningur við þetta mál hefur sveiflast mjög frá því í október 2008 til dagsins í dag svo dæmi sé tekið, allt frá því að um 60–70% þjóðarinnar lýstu yfir stuðningi við aðild að Evrópusambandinu í kjölfar efnahagshrunsins yfir í sambærilega tölu andsnúinna aðild nú.

Utanríkismálanefnd fjallaði mjög ítarlega um umsóknina í fyrrasumar og ítarlegt nefndarálit utanríkismálanefndar lýsir og myndar gunn að vinnu stjórnvalda sem nú er unnið eftir. Á vettvangi Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs hefur verið mótuð sú stefna að hagsmunum okkar sé best borgið utan Evrópusambandsins. Á síðasta landsfundi flokksins voru þrjú meginatriði sem sett voru fram í ályktun um Evrópusambandsmálið. Í fyrsta lagi að ítreka afstöðu okkar um að hagsmunum okkar væri best borgið utan Evrópusambandsins, í öðru lagi var sett fram það sjónarmið að mikilvægt væri að stuðla að opinni og lýðræðislegri umræðu í samfélaginu um málefni Evrópusambandsins og í þriðja lagi að þjóðin ætti sjálf að ráða örlögum sínum hvað varðar Evrópusambandsaðild í beinni þjóðaratkvæðagreiðslu.

Í stjórnarsáttmála núverandi ríkisstjórnarflokka er kveðið á um að hvor flokkur um sig virði sjónarmið hins og þeir báðir áskilji sér rétt til baráttu fyrir sínum viðhorfum í samfélaginu. Í mínum huga er forsenda þess að þjóðin fái tækifæri til þess að ráða örlögum sínum sjálf í þessu máli að ljúka þeirri vinnu sem Alþingi ákvað í fyrra sumar að setja af stað þannig að þjóðin hafi raunverulega kosti uppi á borðinu. Alþingi á að sjálfsögðu að láta sig varða þessi mál og efna til tengsla við þjóðþing Evrópusambandsins og Evrópuþingið til að kynna málstað Íslands, raunar ekki bara með tilliti til ESB-umsóknar heldur einnig í öðrum málum sem eru okkur mikilvæg í samskiptum við aðrar þjóðir. Það hefur utanríkismálanefnd gert með ýmsum hætti með þátttöku í fundum og við höfum tekið á móti ófáum gestum sem hingað hafa komið eins og hv. þm. Bjarni Benediktsson réttilega gat um og svo mun væntanlega verða áfram.

Það er mikilvægt fyrir hagsmuni Íslands að vandað verði til verka og að stjórnvöld standi vörð um okkar brýnustu hagsmuni og að við tryggjum aðkomu sem flestra að þessu ferli. Virk þátttaka hagsmunaaðila og sterk aðkoma Alþingis er lykilatriði að mínu viti.

Annað atriði sem ég legg mikla áherslu á er upplýsingamiðlun. Þjóðin þarf að eiga góða kosti að velja milli þegar málið verður lagt í hennar dóm. Hvort sem hún samþykkir eða fellir aðildarsamning þarf niðurstaðan að verða farsælt skref til framtíðar.

Þá ætla ég að fjalla hér aðeins um alþjóða- og öryggismál. Kaflinn um utanríkismál í samstarfsyfirlýsingu núverandi ríkisstjórnarflokka markar að mörgu leyti tímamót vegna þeirra áherslumála sem þar er fjallað um. Ég lýsi yfir ánægju minni með þær áherslur sem koma fram í samstarfsyfirlýsingu ríkisstjórnarflokkanna í utanríkis- og alþjóðamálum í öllum meginatriðum. Ríkisstjórnin leggur áherslu á baráttu fyrir mannréttindum og kvenfrelsi, friði, afvopnun og gegn fátækt, félagslegu ranglæti, misskiptingu og hungursneyð, m.a. með markvissri þróunaraðstoð. Framlag Íslands til friðargæslu í heiminum á fyrst og fremst að vera á sviði sáttaumleitana, uppbyggingar borgaralegra stofnana, jafnréttis og mannúðarmála. Þetta eru áherslur sem ríma mjög vel við þá sýn sem Vinstri hreyfingin – grænt framboð hefur haft í þessum málaflokki.

Ég vil nefna alveg sérstaklega Palestínu. Ísland getur látið að sér kveða í málefnum þess svæðis. Það þarf að leggja áherslu á pólitísk tengsl við heimastjórn Palestínu og að Íslendingar styðji sjálfsákvörðunarrétt og sjálfstætt ríki þeirra og styðji áfram friðarráð palestínskra og ísraelskra kvenna. Við eigum að viðurkenna að árangur mun ekki nást nema allir aðilar verði kvaddir að borði, það þýðir ekki að sniðganga þá sem Palestínumenn hafa sjálfir kosið sem talsmenn sína. Utanríkisráðherra hefur lýst því yfir að hann hyggist fara til Palestínu til að kynna sér sérstaklega stöðu mála þar og að mínu viti kemur fyllilega til greina að fulltrúar Alþingis fari með í slíka heimsókn.

Utanríkismálanefnd hefur fjallað um ýmis mannréttindamál, m.a. málefni Írans og Bangladess, og gert grein fyrir þeim í skýrslu ráðherrans. Þá hefur staða samkynhneigðra í Litháen verið til umfjöllunar að nýlega gefnu tilefni og ég hyggst m.a. taka það mál til umræðu á samráðsfundi formanna utanríkismálanefnda Norðurlanda og Eystrasaltsríkjanna í næsta mánuði.

Mansal er skelfileg birtingarmynd alþjóðlegrar glæpastarfsemi. Mansal tengist ólöglegri verslun með vopn og eiturlyf, peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka. Utanríkismálanefnd hefur nú afgreitt samhljóða tillögu ráðherra um fullgildingu mansalsbókunar við Palermo-samninginn gegn fjölþjóðlegri skipulagðri glæpastarfsemi og verður hún vonandi samþykkt á Alþingi nú í vor.

Ný sýn í öryggis- og varnarmálum er nauðsynleg eins og réttilega kom fram í máli hæstv. utanríkisráðherra. Í skýrslu ráðherrans er vísað í vinnu áhættumatsnefndar sem skilað var í mars 2009. Ég er í meginatriðum ánægður með þá skýrslu og niðurstöður formanns nefndarinnar en þar er m.a. fjallað um loftrýmisgæslu og að Íslendingar þurfi í auknum mæli að taka á sig skyldur sem Bandaríkjamenn fóru áður með þegar hér var bandarískt herlið. Þar er m.a. sagt, með leyfi forseta:

„Stuðningur við loftrýmisgæslu og aukin þátttaka í hermálasamstarfi NATO sé viðleitni til að koma til móts við það viðhorf. Hins vegar er talið að það eigi nú að vera forgangsverkefni að skjóta stoðum undir aðra öryggisþætti en hefðbundnar landvarnir – t.d. sem snúa að öryggi samfélags og grunnvirkja – í ljósi þess að ekkert gefur ástæðu til að óttast spennu eða hernaðarátök á þessu svæði í náinni framtíð.“

Ég les út úr þessum orðum formanns áhættumatsnefndarinnar að loftrýmisgæslan hafi litla sem enga þýðingu. Í samstarfsyfirlýsingu ríkisstjórnarflokkanna segir m.a., með leyfi forseta:

„Áfram verði unnið að mótun öryggisstefnu Íslands á grundvelli eigin hættumats í nánu samstarfi við nágrannaþjóðir og önnur bandalagsríki. Varnarmálastofnun verði endurskoðuð, sem og loftrýmisgæsla, í samræmi við áherslur í áhættumatsskýrslu fyrir Ísland. Unnið verði á grundvelli víðtæks öryggishugtaks og áhersla lögð á sameiginlegt alþjóðlegt öryggi.“

Vissulega er fjallað um Varnarmálastofnun í skýrslu ráðherrans og nú er komið fram lagafrumvarp hvað þá þætti varðar og eru þeir til umfjöllunar í utanríkismálanefnd. En ég sakna þess að loftrýmisgæslan sé endurskoðuð eins og ríkisstjórnin stefnir að samkvæmt stjórnarsáttmála. Mér þætti fróðlegt að heyra síðar í umræðunni í dag frá hæstv. ráðherra hvernig hann lítur á þau mál.

Ég nefni sérstaklega Stoltenberg-skýrsluna sem fjallað er um í skýrslu ráðherrans. Það er margt jákvætt í þeirri skýrslu. Enda þótt Íslendingar geti af augljósum ástæðum ekki tekið þátt í öllum hlutum hennar þá getum við nýtt okkur vissa hluti þar og eigum hiklaust að gera það og hvetja til þess á vettvangi norrænnar samvinnu.

Í skýrslu ráðherrans er fjallað sérstaklega um afvopnunarmál og þar koma fram meginmarkmið Íslands í afvopnunarmálum, útrýming gereyðingarvopna, afvopnun á sviði kjarnavopna og friðarumræða. Þetta er mikilvægt enda þótt lóð Íslands vegi ekki þungt gagnvart stóru kjarnorkuveldunum. En dropinn holar steininn og sannarlega er annar tónn í alþjóðlegri umræðu nú, m.a. með breyttum áherslum nýrra valdhafa í Bandaríkjunum og Rússlandi. Í samstarfsyfirlýsingu ríkisstjórnarflokkanna segir m.a., með leyfi forseta:

„Ísland verður friðlýst fyrir kjarnorkuvopnum og íslensk stjórnvöld munu beita sér fyrir kjarnorkuafvopnun á alþjóðavettvangi.“

Ég flutti á 136. löggjafarþingi frumvarp um friðlýsingu Íslands fyrir kjarnorkuvopnum, 146. mál. Ég vil kalla eftir hvernig þessu stefnumáli stjórnarinnar verður hrint í framkvæmd og hvort undirbúningur sé í gangi í ráðuneytinu í því efni. Ég vek sérstaklega athygli á því að flest sveitarfélög í landinu hafa nú þegar friðlýst landi á sínu svæði og að mínu mati gæti t.d. fyrsta skref verið að festa í lög gildi slíkra friðlýsinga á vegum sveitarfélaganna.

Ég hefði gjarnan viljað ræða aðeins um samvinnu í þróunarmálum en verið er að vinna á grundvelli nýrra laga um samvinnu í þróunarmálum og aðgerðaáætlun í víðtæku samráði við félagasamtök og fræðasamfélagið. Við höfum sýnt í verki mitt í efnahagsþrengingum að við getum lagt ýmislegt af mörkum eins og íslenska alþjóðabjörgunarsveitin er skýrt dæmi um en hún vann þrekvirki í kjölfar hins mannskæða jarðskjálfta á Haítí í ársbyrjun og eiga þeir sem þar lögðu hönd á plóg heiður skilið.

Ég vil líka leggja áherslu á það stefnumál að virkja konur til þátttöku í þróunarmálum. Reynslan hefur sýnt að þróunaraðstoð sem grundvallast á þátttöku kvenna er leið sem skilar hvað mestum árangri og við þurfum að leggja rækt við það. Ég vil líka greina frá því að utanríkismálanefnd hefur í hyggju að kynna sér betur þróunarstarf á vegum Íslands síðar í sumar.

Nokkur atriði rétt í lokin, hæstv. forseti, þar sem tíminn er að renna út. Ég tel mikilvægt að ljúka endurskoðun skipulags á þinglegri meðferð EES-mála og að samþykkja nýjar reglur þar að lútandi. Það mál er til umfjöllunar hjá forsætisnefnd og ég mun leggja kapp á að þeirri vinnu ljúki sem fyrst.

Aðeins um orðspor Íslands af því að það hefur nú þegar verið til umræðu og upplýsingastarf. Margt hefur blásið á móti okkur undanfarin missiri. Hrun efnahags- og fjármálakerfisins, margvísleg mistök okkar sjálfra, stjórnmálamanna, í stjórnsýslunni og atvinnulífinu, mótstreymi í samskiptum við nágrannaþjóðir og óleyst úrlausnarefni. Við verðum að treysta samstarf við aðrar þjóðir. Við megum ekki einangrast eða draga okkur inn í skel, þvert á móti. Alþjóðastarf okkar hefur sjaldan verið eins mikilvægt og einmitt nú og þrátt fyrir að allir verði að leggja sitt af mörkum í niðurskurði ríkisútgjalda verðum við engu að síður að tryggja viðunandi umfang okkar alþjóðastarfs. Utanríkismálanefnd gegnir veigamiklu hlutverki í því sambandi. Við höfum átt fundi með breskum þingnefndum og höfum boðið utanríkismálanefnd breska þingsins í heimsókn hingað. Við þurfum að efla samstarf við viðskiptaþjóðir okkar, Evrópusambandið að sjálfsögðu, Bandaríkin, Rússland og Kína, og nú hefur utanríkismálanefnd borist boð um að heimsækja þýska þingið.

Skýrsla ráðherrans er mikilvægt innlegg í umræðu um utanríkis- og alþjóðamál á vettvangi Alþingis. Ég hyggst beita mér fyrir því að efni hennar verði til umfjöllunar á vettvangi utanríkismálanefndar á næstunni, henni verður sem sagt vísað til utanríkismálanefndar í samræmi við 23. gr. þingskapalaga. Það er að vísu ekki venja að gera það en hlýtur að vera sjálfsagt mál því að ekki er unnt að ræða öll þau efni í þaula í einni umræðu í þingsal og ég hyggst nýta vinnudaga þingnefnda í ágústmánuði til þess að fara skipulega yfir einstök atriði utanríkismálanna.