138. löggjafarþing — 124. fundur,  17. maí 2010.

Bjargráðasjóður og framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum.

616. mál
[16:47]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Jón Bjarnason) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Jú, það var á dagskrá hjá ráðherranum að koma á Heimaland í kvöld og að óbreyttu stefni ég að því. Það er mjög mikilvægt, eins og hv. þingmaður kom inn á, fyrir okkur sem öxlum ábyrgð af hálfu stjórnvalda í þessum efnum að við heyrum orðræðuna, óskirnar, áhyggjurnar og hvatninguna af vettvangi.

Það er alveg hárrétt að þetta hvílir á sveitarfélögunum og forustu þeirra. Það verður að gera það og það eru heimaaðilar sem verða að axla ábyrgðina á framkvæmdinni og gera það sem þarf að gera. Okkar hinna er að veita allan þann bakstuðning sem við getum í þeim efnum. Ég er viss um og það hefur komið fram, eins og hv. þingmaður minntist á, að það er einhugur allra flokka á þingi og einhugur innan ríkisstjórnar um að það sé gert.

Síðan þurfum við að búa okkur undir að takast á við að leysa þau bráðaverkefni sem vorið kallar á, sauðburð og annað slíkt. Síðan er alveg ljóst að á ákveðnum bæjum verður ekki stundaður heyskapur í sumar og á öðrum er erfið staða. Við viljum að stutt sé við þá valkosti að hægt sé að afla heyja og að búin verði rekin þarna áfram, þó svo að á einhverjum þeirra þurfi að gera hlé. Það verður allt gert af hálfu stjórnvalda til þess að tryggja áframhaldandi möguleika og góða búsetu og landbúnaðarframleiðslu þótt kannski verði að gera alvarlega lykkju á þá leið. Ég hef sagt áður og segi enn (Forseti hringir.) að fyrir hvert býli sem fer í eyði eða leggst af búseta á, (Forseti hringir.) minnkar Ísland. Það skulu vera mín orð.