138. löggjafarþing — 124. fundur,  17. maí 2010.

Bjargráðasjóður og framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum.

616. mál
[17:11]
Horfa

Frsm. sjútv.- og landbn. (Atli Gíslason) (Vg):

Frú forseti. Ég vil þakka kærlega fyrir þessa umræðu sem hér hefur átt sér stað og þá samstöðu sem ríkir um þetta mál. Það er sprottið af samtölum og samræðum við bændur og aðra hagsmunaaðila á þessu svæði og ég vil að gefnu tilefni taka fram að ég tel að það hafi verið unnið fumlaust, faglega og markvisst að þessu máli. Umræðan um flutning á búfé gat auðvitað ekki komið upp varðandi óborið fé því það er ekki flutningshæft og heldur ekki nýborin lömb því þau verða að eiga hálfsmánaðar æviskeið eða meira áður en ráðist er í flutninga.

Ég vil nefna sérstaklega að sérfræðingar hafa farið sem teymi um svæðið, ráðunautar, fulltrúar Matvælastofnunar, Landgræðslunnar, Bændasamtakanna og dýraheilbrigðisfulltrúar. Þeir hafa farið frá býli til býlis og tekið út aðstæður á hverjum stað og síðan er verið að bregðast við því. Ég vil líka sérstaklega taka undir þakkarorð hv. þm. Unnar Brár Konráðsdóttur, sem býr á Hvolsvelli og þekkir þetta til hlítar, hrósyrði hennar og þakklæti í garð allra sem hafa komið að málinu, almannavarna, lögreglu, sjálfboðaliða og fleiri og fleiri. Ég hef sagt það áður í þessum ræðustól að ég er stoltur af störfum þeirra og þakka þeim kærlega fyrir.

Að öllu óbreyttu er stefnt að því að þetta frumvarp verði afgreitt og verði að lögum á morgun. Ég vil að lokum geta þess að fleira er til skoðunar. Það koma upp spurningar og þær eru allar til skoðunar, m.a. varðandi flutning út fyrir hólf og slátrun að hausti. Einnig er verið að skoða sérstaklega það sem snýr að lánamálum bænda á svæðinu, hvort mögulegt sé að frysta þau o.s.frv. Enn á ný þakka ég meðnefndarmönnum í sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd fyrir gott samstarf við að koma þessu máli fram sem og þingmönnum öllum.