138. löggjafarþing — 125. fundur,  18. maí 2010.

störf þingsins.

[13:55]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Hann hefur verið svolítið sérkennilegur þessi síðasti hálftími. Hér hafa verið nefnd sjö eða átta mál sem þingmönnum liggja á hjarta og allt gott um það að segja, þessi dagskrárliður býður upp á það. En ég sakna þess hins vegar að það mál sem hér var síðast rætt, kaup Magma, skuli ekki hafa fengið meiri tíma í þessari umræðu vegna þess að hér er um að ræða mál sem öllum er ljóst að skekur þá ríkisstjórn sem nú situr að völdum. Það sjá það allir. Stjórnarflokkarnir tala hvor sinni röddu í þessu og hugsanlega eru raddirnar innan þessara flokka jafnvel enn fleiri. Þess vegna hefði verið ánægjulegt ef hæstv. utanríkisráðherra, sem er einn ráðherra viðstaddur umræðuna, hefði notað tækifærið hér — honum gefst vonandi tækifæri til þess á eftir — til að greina okkur frá því hvað var rætt á ríkisstjórnarfundi áðan um þetta efni.

Það er ljóst að þau skilaboð sem koma frá ríkisstjórnarflokkunum eru mjög misvísandi í þessu máli og ganga þvers og kruss. Hv. þm. Lilja Mósesdóttir talar í eina átt og hv. þm. Skúli Helgason í einhverja allt aðra og það hafa ráðherrar í ríkisstjórninni líka gert. Öllum er ljóst að um er að ræða mál sem ristir djúpt í hjarta ríkisstjórnarinnar. En í staðinn fyrir að ræða þetta, ræða stöðuna í þessu máli, ræða hvað menn vilja gera eða hvaða aðgerðir, ef einhverjar, menn vilja sjá í þessum efnum, erum við að tala um 8–9 mál samkvæmt einhverjum óskalista þingmanna. Umræðan hefur verið þannig að í mjög mörgum tilvikum hafa þingmenn farið eins og kettir í kringum heitan graut vegna þess að ekki má nefna þetta mál sem greinilega skekur ríkisstjórnina og veldur henni ómældum innri vandræðum.