138. löggjafarþing — 125. fundur,  18. maí 2010.

störf þingsins.

[14:04]
Horfa

Þór Saari (Hr):

(Gripið fram í: Ekki draga af þér.) Virðulegur forseti. Ég þakka kærlega fyrir þá framlengingu sem hefur verið gerð á tímanum fyrir umræður um störf þingsins.

Mig langar að ræða stjórnmál í aðeins stærra samhengi. Fyrir liggur að samkvæmt skoðanakönnunum mun Besti flokkurinn fá mest fylgi í komandi kosningum til borgarstjórnar í Reykjavík. Hér er á ferðinni gríðarleg háðsádeila á fjórflokkakerfið og gagnsleysi þess og ef fram fer sem horfir mun þetta vekja heimsathygli. Gengi Besta flokksins á rætur í því algjöra skipbroti íslenskra stjórnmála sem varð árið 2008 og sem stjórnmálaflokkunum og nýkjörnu Alþingi hefur ekki tekist að hnika af strandstað. Því miður virðast mér t.d. viðbrögð Alþingis og þingmanna við skýrslu rannsóknarnefndarinnar og mörgum þeim frumvörpum sem fram hafa komið á þinginu vera á þann veg að fátt muni breytast þrátt fyrir hrunið og þrátt fyrir skýrsluna.

Hér er um að ræða mjög merkilega en jafnvel hugsanlega alvarlega þróun í stjórnmálum á Íslandi. Mér óar svolítið við þeirri þróun þó að ég hafi mjög gaman af Jóni Gnarr og félögum, en ég verð þó að segja að miðað við óbreytt ástand og það sem ég hef upplifað sjálfur á þingi í heilt ár verð ég einfaldlega að óska Besta flokknum velfarnaðar og ekki þá bara í Reykjavík heldur væntanlega einnig í næstkomandi alþingiskosningum.