138. löggjafarþing — 129. fundur,  1. júní 2010.

störf þingsins.

[13:59]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf):

Hæstv. forseti. Síðasta setning hjá hv. þm. Ragnheiði Elínu Árnadóttur lýsir kannski þeirri orðræðu sem stundum á sér stað hér í þinginu: „Hér er allt í upplausn“. Getur einhver staðið við það? Er allt í upplausn hér? Er allt í bölvuðum vandræðum þó að við gagnrýnum eitthvað eða leiðbeinum eða viljum hafa skoðanir á því? Það er ekki þannig. Við erum í sjálfu sér að gera ótrúlega góða hluti við mjög erfiðar aðstæður. Margt viljum við gera betur og eitt af því sem við hefðum gjarnan viljað nota í vinnu okkar, m.a. í fjárlagagerð, er að vera með miklu betri upplýsingar um afleiðingar þeirra ákvarðana sem við tökum á hverjum tíma. Eitt atriði sem þar hefur komið inn er einmitt áhrif á börn, á kynin, eins og hv. þm. Ásbjörn Óttarsson benti réttilega á. Það sem við erum að skera niður, hvar hefur það áhrif? Hverjir eru fórnarlömbin? Þessar upplýsingar höfum við ekki og þess vegna hafa menn verið að ræða um kynjaða fjárlagagerð, ekki bara hagstjórn. Þess vegna er verið að leita eftir því að við vinnum okkar vinnu.

Ég hef kallað eftir því í fjárlaganefnd að við setjum upp mælikvarða, „indicatora“ eða hvað á að kalla það, um t.d. áhrif á byggðir. Það er stór pólitísk ákvörðun hvar við ætlum að halda úti byggð. Við verðum að vera meðvituð um að þær ákvarðanir sem við tökum stuðli að því sem við viljum stefna að, hvort sem það eru jafnréttismál eða byggðamál.

Ég vona að við lærum það af þessum sveitarstjórnarkosningum og orðræðu í framhaldi af þeim að við reynum að skilgreina betur forgangsröðunina og hegðum okkur í samræmi við það, reynum að láta hlutina ganga fyrir sig þar sem við viljum verja fólk, barnafólkið, láglaunafólkið, þá sem verst standa í samfélaginu. Við verðum að þrengja að hinum, a.m.k. tímabundið, til þess að hafa efni á því að láta samfélagið rúlla áfram.

Hér er engin upplausn en margt hefur gengið hægar en við áttum von á. Þar kemur einmitt lagaumhverfið aftur í tímann inn í myndina, stjórnarskráin er t.d. að þvælast fyrir okkur. Við getum ekki tekið einfaldar ákvarðanir í sambandi við aðgerðir í þágu heimila eða bílafrumvarp, (Forseti hringir.) ef við breytum ábyrgðarmannakerfinu erum við komin með lögfræðingahóp á bakið. Þetta er umhverfið sem við vinnum í og verðum að vinna okkur í gegnum hægt og bítandi. En í guðanna bænum temjum okkur ekki að tala um að (Forseti hringir.) allt sé í vandræðum þó að við verðum að fara að okkar eigin lögum.