138. löggjafarþing — 129. fundur,  1. júní 2010.

árás ísraelsks herskips á skipalest með hjálpargögn.

[14:24]
Horfa

Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf):

Frú forseti. Það er umhugsunarvert að Ísraelsríki sem stofnað var 1948 og á uppruna sinn í hrikalegum afleiðingum helfararinnar og nasismans skuli nú vera fánaberi aðskilnaðarstefnu og mannfyrirlitningar í samskiptum og kúgun á palestínsku þjóðinni. Þetta er ekkert annað en fasismi og fasismi skal það heita, aðskilnaðarstefna af verstu tegund.

Ríki heims tóku sig saman um að berjast gegn aðskilnaðarstefnu Suður-Afríkustjórnar og það tókst að buga stjórnina og knýja menn til friðarumleitana í því landi. Nú hefur verið reynt um missirabil að knýja nýja ríkisstjórn Ísraels til friðarumleitana við Palestínumenn með því eina skilyrði að Ísraelsstjórn hætti landtöku. Ísraelsstjórn getur ekki fallist á það einfalda skilyrði. Ég er þeirrar skoðunar og ég held að Ísraelsstjórn vilji ekki frið. Hún vill ekki frið við Palestínumenn, hún vill kannski ekki tveggja ríkja lausnina þegar allt kemur til alls. Þess vegna þarf þessi atburður sem við ræðum hér og höfum ályktað um í hv. utanríkismálanefnd, atburður sem er reyndar bara einn af mörgum í langri sögu hernáms og átaka í Miðausturlöndum, að verða til þess að við íslensk stjórnvöld og Íslendingar tökum saman höndum í samvinnu við önnur lýðræðisríki um að beita stjórnvöld í Ísrael aðgerðum sem skila árangri. Um það snýst ályktun utanríkismálanefndar og það er verkefni hæstv. utanríkisráðherra (Forseti hringir.) og stjórnvalda hér á landi.