138. löggjafarþing — 129. fundur,  1. júní 2010.

sveitarstjórnarlög.

15. mál
[15:50]
Horfa

Þór Saari (Hr) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Við greiðum nú atkvæði um að vísa brýnu lýðræðisumbótamáli til ríkisstjórnarinnar til þess að það fái umfjöllun við endurskoðun sveitarstjórnarlaga. Þetta frumvarp var tilraun af hálfu Hreyfingarinnar til þess að færa lýðræðis„status“ sveitarstjórna á Íslandi til samræmis við það sem gerist í öllum öðrum Evrópulöndum, þ.e. að fjölga sveitarstjórnarmönnum.

Íslendingar búa við algera sérstöðu hvað varðar fámenni í sveitarstjórnum. Í Mosfellsbæ þarf t.d. 15% atkvæðisbærra manna til þess að ná inn sveitarstjórnarmanni. Þetta er algjört einsdæmi og gríðarlegur lýðræðishalli sem er til skammar fyrir lýðræðið. Þetta frumvarp fékk ekki náð í samgöngunefnd en það var fallist á að vísa því til endurskoðunar sveitarstjórnarlaga, vegna þess að þar er einnig verið að endurskoða kaflann um fjölda sveitarstjórnarmanna og það er vel. Þetta er mjög mikilvægt atriði sem þingmenn þurfa að hafa í huga í framtíðinni þegar kemur að lýðræði og sveitarstjórnum á Íslandi.