138. löggjafarþing — 129. fundur,  1. júní 2010.

heimild fjármálafyrirtækis til að veita veðréttindi.

517. mál
[17:48]
Horfa

Frsm. meiri hluta viðskn. (Lilja Mósesdóttir) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ef við samþykkjum ekki þetta frumvarp um innstæðutryggingarkerfi eða innstæðutryggingarsjóð þá komumst við ekki hjá því að öll ábyrgð á bankahruni lendir á skattgreiðendum. Ég er þeirrar skoðunar að við þurfum að koma þessari ábyrgð sem fyrst af skattgreiðendum yfir á fjármagnseigendur sjálfa. Liður í því er að búa til tryggingakerfi eins og t.d. vátryggingakerfið er. Ég geri mér fyllilega grein fyrir því að slík sjóðssöfnun sem felst í tryggingakerfi getur ekki bætt fall stórs banka eða kerfishrun en við megum heldur ekki gleyma því að í frumvarpinu er gert ráð fyrir því að sjóðurinn geti tekið lán þegar ekki er nógu mikið fjármagn í honum til að bæta skaða innstæðueigenda við fall banka.