138. löggjafarþing — 129. fundur,  1. júní 2010.

heimild fjármálafyrirtækis til að veita veðréttindi.

517. mál
[17:51]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil þakka hv. þm. Guðlaugi Þór Þórðarsyni fyrir ágætt innlegg og ágæta ræðu. Reyndar var ræðan að einhverju leyti sjokkerandi vegna þeirra upplýsinga sem komu fram um að skuldabréfið, sem nýi Landsbankinn greiddi gamla Landsbankanum fyrir mismun á eignum og skuldum sem hann tók yfir, hafi verið tengt einhverju samkomulagi. Mig langar til að spyrja hv. þingmann, sem var í nefndinni: Kom nokkuð fram um það hvers vegna þessi leynd á skuldabréfinu var nauðsynleg? Hvað er það sem menn eru að verja með því að hafa þessa leynd? Kom einhvers staðar fram að þetta væri nauðsynlegt út af viðskiptahagsmunum eða út af hagsmunum gagnvart kröfuhöfum? Ég skil ekki almennilega hvers vegna þessi leynd er viðhöfð, ég hefði talið og hef alltaf talið að bæði skuldabréfið sjálft og allir samningar sem því tengjast hefðu átt að liggja uppi á borðum.

Þetta tengist líka umræðu um innlánstryggingarkerfin, nú er Evrópusambandið komið með nýja tilskipun sem Evrópska efnahagssvæðið hefur reyndar ekki tekið upp þar sem gert er ráð fyrir því að ríkisábyrgð verði grunnatriði í innlánstryggingarkerfinu. Það segir mér að ef sú tilskipun verður tekin upp munu ekki aðrir bankar en ríkisbankar starfa á Evrópska efnahagssvæðinu eða innan Evrópusambandsins, vegna þess að ríkisábyrgð á innlánum þýðir í reynd að ríkið verður meira og minna að stjórna bönkunum. Það verður þá að fara í gegnum efnahaginn og skoða allar þær ráðstafanir sem bankarnir gera af því að þær geta skaðað hagsmuni ríkisins.

Mig langar til að fá betri upplýsingar um þetta frá hv. þingmanni, hvort þessi leynd hafi verið nauðsynleg og hvort komið hafi fram að þessi hugsun um innlánstryggingarkerfið leiði til þess að allir bankar verði að vera ríkisbankar.