138. löggjafarþing — 130. fundur,  1. júní 2010.

gjaldeyrismál og tollalög.

645. mál
[20:06]
Horfa

efnahags- og viðskiptaráðherra (Gylfi Magnússon) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka ágæta og málefnalega ræðu hjá hv. þm. Birgi Ármannssyni. Varðandi fyrra málið sem hann bryddaði upp á, verkaskiptingu á milli Fjármálaeftirlits annars vegar og Seðlabanka hins vegar og jafnvel hugsanlega nánari samþættingu, ef við orðum það þannig, þessara stofnana er því til að svara að það er alveg ljóst að það er ein af þeim spurningum sem við verðum að takast á við á næstu missirum. Ég hef raunar þegar ákveðið að koma af stað vinnu við að endurskoða annars vegar lög um Seðlabankann, það gæti jafnvel náðst að skipa nefnd sem færi í það mál í þessari viku, og samhliða verður önnur nefnd sett í að fara yfir lög sem snerta Fjármálaeftirlitið. Báðum þessum nefndum er vitaskuld ætlað að fara yfir margt sem fram hefur komið á undanförnum mánuðum og árum sem greinilega þarf að breyta til betri vegar. Þeim er hins vegar ekki ætlað að takast á við þá grundvallarspurningu hvort Fjármálaeftirlitið og Seðlabankinn eigi að vera ein og sama stofnunin eða tvær stofnanir með náið samstarf og það er með vilja gert. Ég tel í ljósi þess hversu gríðarlegt álag er núna á þessum stofnunum, sérstaklega Fjármálaeftirlitinu, sé betra að gefa þeim frest eitthvað fram á næsta vetur til að vinna úr þeim málum áður en farið verður í erfiða og tímafreka vinnu við hugsanlegar skipulagsbreytingar. Sú vinna mundi þá hefjast í kjölfarið. Einhvern tíma næsta vetur, hugsanlega upp úr áramótum, væri að mínu mati eðlilegt að fara í þá vinnu sem þingmaðurinn ræddi og ég tel fyllilega eðlilegt að lagt sé í.

Ég næ ekki að svara um tímafrestina núna en næ því vonandi í öðru andsvari ef til þess kemur.