138. löggjafarþing — 132. fundur,  7. júní 2010.

aðkoma forsætisráðherra að launamálum seðlabankastjóra.

[10:39]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F):

Frú forseti. Ég held að það sé ástæða til að spyrja öðru sinni vegna þess að hæstv. forsætisráðherra svaraði engri af þeim fyrirspurnum sem ég lagði fram, heldur kom með fyrir fram skrifaðan pistil til andsvara í þessu máli. Ég spyr aftur: Hvað finnst hæstv. ráðherra um stjórnsýslu ráðuneytisins í þessu máli sem hún ber ábyrgð á?

Í öðru lagi spyr ég, vegna þess að Lára V. Júlíusdóttir hefur sagt fjölmörgum sinnum að fyrirheit hafi verið gefin um laun seðlabankastjóra: Átti Lára V. Júlíusdóttir einungis frumkvæði að því sjálf að lofa þessu eða voru einhver fyrirheit gefin í ráðuneytinu eða á öðrum stöðum innan Samfylkingarinnar sem Lára V. fylgdi eftir? Við höfum ekki fengið skýr svör hvað þetta varðar og það er lágmarkið núna þegar við ræðum þetta í fimmta eða sjötta skipti á Alþingi að fá skýr svör og að menn segi sannleikann í þessum efnum. Hæstv. forsætisráðherra hefur ekki svarað fjölmörgum spurningum er snerta þetta mál. Það væri hægt að klára það í eitt skipti fyrir öll (Forseti hringir.) ef hæstv. ráðherra mundi svara þeim fyrirspurnum sem til hennar er beint í þessu máli.