138. löggjafarþing — 132. fundur,  7. júní 2010.

samningar við kröfuhafa gamla Landsbankans og innstæðutryggingar.

[10:55]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Hæstv. ráðherra svarar í engu spurningunni varðandi innstæðutryggingarnar, en tók sérstaklega langan tíma í að fara efnislega yfir þætti sem við höfum oft gert. Ég er með gögn sem við fengum í morgun og eru algjörlega í samræmi við það sem sagt var í nefndinni, að frumvarpið er forsendan fyrir kjörunum á skuldabréfinu. Forsendan fyrir þeim er þetta frumvarp. Hér kemur dagsetning fram sem upplýst var fyrst um í nefndinni, að ef þingið væri ekki búið að klára þetta fyrir 15. apríl, væri málið í fullkomnu uppnámi.

Ég spyr aftur hæstv. ráðherra, af því að hann svarar engu um, af hverju sagði hann ekki frá þessu. Af hverju upplýsti efnahags- og viðskiptaráðherra ekki um þessa samninga sem lágu til grundvallar frumvarpinu? Það liggur alveg ljóst fyrir að ef hv. viðskiptanefnd hefði ekki farið gaumgæfilega í málið mundi enginn vita af þessu. Það kom skýrt fram í nefndinni að gerður var (Forseti hringir.) samningur við kröfuhafa og þinginu var ætlað að framkvæma hann. Það hefur aldrei komið fram.