138. löggjafarþing — 132. fundur,  7. júní 2010.

fundarstjórn.

[11:12]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Það er alveg hárrétt hjá síðasta ræðumanni að fjölmörg mál liggja enn fyrir þinginu sem þarf að afgreiða áður en hlé verður gert á þingstörfum enda er þetta þing, eins og þingmenn þekkja, um margt óvanalegt og mjög mörg mál sem hafa komið til kasta þingsins eru stór og erfið, en ég vona sannarlega að við getum nýtt þann tíma sem við höfum þar til hlé verður gert. Ég hef kappkostað að reyna að hafa fundi með formönnum stjórnarandstöðunnar til að gera þeim grein fyrir stöðunni, mig minnir að ég hafi kallað þá tvisvar til fundar. Fundur átti að vera síðastliðinn föstudag til að fara aftur yfir stöðuna en þá voru nefndir enn að störfum fram á kvöld þannig að ég ákvað að sá fundur yrði haldinn síðdegis í dag eða í kvöld eftir því hvernig okkur miðar. Ég hef boðað formenn nefndanna á minn fund og fjármálaráðherra til að fara yfir stöðuna eftir þá nefndalotu sem hefur verið í gangi og til að sjá hvernig staðan er. Ég vona að málum fækki eitthvað og við sjáum til lands í þessu efni.