138. löggjafarþing — 132. fundur,  7. júní 2010.

lokafjárlög 2008.

391. mál
[12:04]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S):

Virðulegi forseti. Við ræðum lokafjárlög fyrir árið 2008. Ég vil vekja athygli á að við gerum það núna á miðju ári 2010. Það er svo sem ekki það eina vegna þess að þegar umræðan hófst fyrir um viku, síðastliðinn þriðjudag, hefði verið æskilegt að hún hefði verið í ákveðinni samfellu en þau mistök urðu þegar fundi var slitið og boðað var til annars fundar að það misfórst að setja málið aftur á dagskrána sem þá tók við á seinni fundinum þannig að umræðan er dálítið slitrótt. Það kom fram í þeirri umræðu og á undan henni var einmitt sérstaklega rædd mæting þingmanna í nefndir. Hv. þm. Sigríður Ingibjörg Ingadóttir gerði það hér að umtalsefni og kvartaði yfir því að það væri oft og tíðum þannig í hv. þingnefndum að jafnvel stjórnarandstaðan væri með meiri hluta.

Ég vek athygli á þessu hér vegna þess að nafn mitt er ekki á þessu nefndaráliti og vildi láta það koma fram að ég sat þennan nefndarfund en þurfti því miður að fara á annan vegna þess að þessi dróst um 10 mínútur fram yfir þann tíma sem við höfðum. Ég lýsi mig sammála þessu nefndaráliti en vil gefa skýringu á af hverju ég er ekki á því eða með sérstakt nefndarálit.

Það kemur fram í nefndaráliti meiri hlutans og það er svo sem búið að fara yfir það að mismunur var í ríkisreikningi og lokafjárlögum upp á 1.360 millj. kr. Í raun og veru liggur það alveg klárt fyrir að ríkisreikningur og lokafjárlög eru og eiga að vera eitt og sama plaggið. Síðan voru gerðar á því breytingar í meðförum fjárlaganefndar og varð að sjálfsögðu að breyta lokafjárlögunum vegna þess að ef það hefði verið gert á annan veg hefði þurft að taka upp ríkisreikninginn sem var þegar búið að árita þannig að það hefði kannski ekki verið til eftirbreytni.

Í meirihlutaáliti fjárlaganefndar, sem ég ætla aðeins að koma hér inn á, koma fram þær reglur sem gilda um færslu fjármuna á milli ára. Við erum búin að vera í þessum dansi í hv. fjárlaganefnd lengi. Við munum eftir því í maí eða júní í fyrra þegar allir forstöðumenn stofnana voru kallaðir inn til hv. fjárlaganefndar og gert grein fyrir því að menn fengju ekki að flytja neinar fjárheimildir milli ára, þ.e. óráðstafaðar fjárheimildir. Síðan er þetta búið að vera í skötulíki og hefur velkst um hjá framkvæmdarvaldinu í marga mánuði. Í raun og veru er varla komin niðurstaða enn þá, sem er mjög bagalegt, vegna þess að sumir forstöðumenn stofnana litu svo á að þessu yrði reddað gagnvart stofnunum sem þeir stýrðu. En aðrir brugðust við og tóku orð hv. fjárlaganefndar gild og litu svo á að þeir mættu ekki færa þær fjárheimildir á milli ára sem þeir áttu óráðstafaðar.

Það kemur einmitt fram í skýrslu Ríkisendurskoðunar og í nefndaráliti meiri hluta hv. fjárlaganefndar að það verði að koma á skýrari vinnureglum um hvernig þessu sé háttað. Það eru reglur sem unnið er eftir sem segja til um það að menn megi færa um 4% á milli ára af því sem þeir eiga af óráðstöfuðum fjárheimildum en geta að hámarki safnað upp í 10% þannig að ef menn flytja á milli margra ára geta þeir aldrei farið upp fyrir 10%.

Í forsætisráðuneytinu sem var nú ekki til meðferðar hér eru um 140 milljónir í óráðstöfuðum fjárheimildum sem búið er að geyma milli ára og hafa safnast upp í mjög mörg ár. Þetta eru hlutir sem verður að taka skýrar á. Það er ekki nóg að hafa vinnureglur, það verður að fara eftir þeim. Enda kemur það fram hér í þessu nefndaráliti að meiri hluti fjárlaganefndar telur að skerpa þurfi reglur í þessu sambandi þannig að ekki fari á milli mála hvaða heimildir séu til að flytja fjárheimildir á milli ára.

Síðan kemur líka fram í þessu nefndaráliti, virðulegur forseti, sem ég ætla að fá að vitna í hér, með leyfi forseta:

„Meiri hluti fjárlaganefndar vekur athygli á að frumvarpið var ekki lagt fram um leið og ríkisreikningur 2008 þrátt fyrir að skylt sé að gera það samkvæmt fyrrgreindum lögum.“

Meiri hlutinn gerir þá kröfu að úr þessu verði bætt, sem er gríðarlega mikilvægt, og menn vinni þetta þannig að þeir séu ekki með þá skekkju sem kom greinilega fram í ríkisreikningi og lokafjárlögum upp á 1.350 millj. kr. sem er mjög bagalegt.

Virðulegi forseti. Svo ég sé nú ekki að endurtaka mikið sem komið hefur fram hjá hv. þingmönnum þá langar mig að vitna hér í skýrslu frá Ríkisendurskoðun, annars vegar um ríkisreikninginn og hins vegar umsögn um lokafjárlögin. Það eru ansi vönduð gögn sem komu frá Ríkisendurskoðun. Mig langar að grípa niður á tveimur stöðum í sambandi við ríkisreikninginn. Þar segir í skýrslu Ríkisendurskoðunar, með leyfi forseta, þar sem verið er að fjalla um yfirvinnugreiðslur hjá ríkinu:

„Gerð var sérstök könnun á fyrirkomulagi yfirvinnugreiðslna hjá þeim ríkisaðilum sem endurskoðaðir voru. Aðeins hluti þeirra hefur varpað ómældri yfirvinnu yfir í sameiginlega launatöflu eins og ákveðið var í kjarasamningum árið 2006. Að mati Ríkisendurskoðunar er fyrirkomulag launamála hjá ríkinu mjög ógagnsætt. Margs konar samningar eru í gangi hjá stofnunum um greiðslu fyrir ómælda yfirvinnu. Að mati Ríkisendurskoðunar má spyrja hvort flutningur ákvarðana um launamál frá launaskrifstofu fjármálaráðuneytisins til einstakra stofnana hafi að einhverju leyti mistekist, m.a. vegna þess að ekki hafi verið staðið nægjanlega vel að undirbúningi hans. Hvetur Ríkisendurskoðun til þess að flutningurinn verði endurskoðaður með hliðsjón af því að um er að ræða einn stærsta útgjaldalið ríkisins.“

Ég tel mjög mikilvægt, virðulegi forseti, að hv. fjárlaganefnd fylgi því eftir að þessi athugun fari fram. Mér er ekki kunnugt um að hún sé hafin en það er gríðarlega mikilvægt að farið verði yfir hvort þetta hafi hugsanlega mistekist eins og látið er liggja að í skýrslu Ríkisendurskoðunar, a.m.k. er vakin athygli á því að þetta þurfi að skoða sérstaklega.

Líka er vakin athygli á því, virðulegi forseti, að í ríkisreikningnum og þar af leiðandi lokafjárlögunum, sem vakti sérstaklega athygli mína þegar farið var yfir ríkisreikninginn, eru nú skráðir 3,6 milljarðar sem eru ógreiddar virðisaukaskattsskuldir frá árinu 1990–1999, þ.e. þetta eru 20 ára gamlar skuldir að hámarki og 11 ára að lágmarki. Maður setur stórt spurningarmerki við svona stórar tölur inni í ríkisreikningi upp á 3,6 milljarða út af virðisaukaskattsskuldum frá 1990–1999. Þetta vakti athygli mína og skýringin á þessu hlýtur einfaldlega að vera sú að þeir aðilar sem innheimta þetta, sem eru yfirleitt sýslumenn, hafi samræmdar reglur. Menn verða að skoða þetta sérstaklega, þó að ég geri mér fulla grein fyrir því að það eigi ekki að afskrifa kröfu fyrr en allt er fulltreynt til að innheimta þær, en árafjöldinn vekur athygli mína.

Virðulegi forseti. Þá ætla ég að fá að vitna aðeins í athugasemdir sem fylgdu frumvarpinu á sínum tíma og nefndar eru í umsögn Ríkisendurskoðunar um frumvarp til lokafjárlaga sem okkur í fjárlaganefnd barst í marsmánuði síðastliðnum. Þar segir, með leyfi forseta:

„Í V. kafla eru ákvæði um fjáraukalög og lokafjárlög. Í þeim ákvæðum er mörkuð skýr stefna um hlutverk fjáraukalaga. Þeirrar tilhneigingar hefur gætt að setja í fjáraukalög ýmsar útgjaldaheimildir sem með réttu hefði átt að gera ráð fyrir í fjárlögum. Þannig hefur í reynd verið vikist hjá því að fjalla um allar fyrirsjáanlegar fjárráðstafanir í fjárlögum og málum frestað og þau tekin upp í fjáraukalögum. Í þessu frumvarpi er mörkuð skýr stefna um efni fjárlaga, fjáraukalaga og lokafjárlaga. Gert er ráð fyrir að allar fyrirsjáanlegar fjárráðstafanir komi fram í fjárlögum. Í fjáraukalögum innan fjárhagsárs verði fjallað um þær fjárráðstafanir sem ekki var hægt að sjá fyrir við afgreiðslu fjárlaga. Fjáraukalög snerust þannig fyrst og fremst um ófrávíkjanleg málefni en ekki um rekstrarvanda einstakra ríkisstofnana. Aðrar fjárhagsráðstafanir eiga að koma til umfjöllunar eftir atvikum við afgreiðslu fjárlaga fyrir næsta fjárhagsár eða við afgreiðslu lokafjárlaga fyrir síðasta fjárhagsár.

Frumvarpið gerir ráð fyrir að lokafjárlög verði afgreidd frá Alþingi um leið og ríkisreikningur og að Alþingi fjalli þannig um lokun fjárhagsársins með umræðu um ríkisreikning og lokafjárlög. Ekki verður flutt sérstakt frumvarp til laga um samþykkt ríkisreiknings eins og verið hefur heldur felist staðfesting á reikningnum í samþykkt lokafjárlaga frá Alþingi.“

Og í umsögninni kemur fram:

„Af framansögðu er ljóst að frumvarp til lokafjárlaga er eingöngu lagt fram til að þingið geti samþykkt ríkisreikning. Því er ekki ætlað að sýna aðra niðurstöðu en þar kemur fram. Samþykki Alþingi frumvarp til lokafjárlaga með annarri niðurstöðu mætti færa rök fyrir því að taka þyrfti ríkisreikning, áritaðan af ríkisendurskoðanda, upp og breyta honum til samræmis við samþykkt lokafjárlög.“

Þetta er einmitt það sem kemur fram í nefndaráliti hv. fjárlaganefndar þar sem er sérstaklega vakin athygli á því að þetta verði að afgreiðast samhliða og gerir hv. fjárlaganefnd eða meiri hluti hennar kröfu um að þessum vinnubrögðum verði breytt. Maður bindur miklar vonir við að einhver breyting verði á því en ekki að við hv. þingmenn komum hér hver á fætur öðrum upp í ræðustól og ætlumst til að það verði gert og síðan breytist í raun og veru ekkert á milli ára.

Síðan hnykkir Ríkisendurskoðun á, virðulegur forseti, og ég ætla að fá að vitna áfram í umsögnina:

„Ljóst er að það verklag sem hér er mælt fyrir um hefur ekki náð fram að ganga, fjáraukalög hafa iðulega að geyma fjárveitingar sem ýmist hefði mátt afgreiða með gildandi fjárlögum eða hefðu mátt bíða næstu fjárlaga. Sama gildir um lokafjárlög sem í reynd hafa þróast þannig að þau eru ekkert annað en fjáraukalög sem lögð eru fram og samþykkt eftir að viðkomandi fjárlagaári er lokið.“

Þarna staldra ég við, virðulegi forseti, því að það sjá það allir heilvita menn sem spá eitthvað í þessa hluti að við leggjum fram fjárlög, síðan leggjum við fram fjáraukalög til þess að verða við ákveðnum misbrestum sem verða en síðan bendir Ríkisendurskoðun á í þessari umsögn að í raun og veru séu lokafjárlögin að þokast í þá átt að verða eins konar fjáraukalög. Það er algjörlega óásættanlegt að verið sé að breyta eftir á eins og í þessu tilfelli um tveimur árum eftir að fjárhagsárinu lýkur. Þetta er grafalvarlegt mál að mínu viti og það verður að bregðast við þessari ábendingu frá Ríkisendurskoðun.

Síðan, virðulegi forseti, ætla ég að fá að vitna enn og aftur í umsögn Ríkisendurskoðunar sem er afskaplega góð, með leyfi forseta:

„Að mati Ríkisendurskoðunar eru miklir ágallar á því verklagi sem fylgt er í sambandi við fjárlög, fjáraukalög og lokafjárlög. Verklagið er ósamstætt og algengt er að fjárheimildir séu veittar eftir að til útgjalda var stofnað.“

Ég vek sérstaklega athygli á þessu, virðulegi forseti, að algengt er að mati Ríkisendurskoðunar að fjárheimildir séu veittar eftir að til útgjalda var stofnað. Það er akkúrat það sem oft er verið að ræða hér í sölum þingsins að framkvæmdarvaldið sé í raun og veru að taka sér vald sem það hefur ekki með því að fara í ákveðnar framkvæmdir og síðan samþykki Alþingi beiðnina eftir á. Þetta, virðulegur forseti, er staðfest af Ríkisendurskoðun. Það er staðfest með þeim orðum Ríkisendurskoðunar að fjárheimildir séu veittar eftir að til útgjalda er stofnað.

Síðan vil ég fá að vitna enn frekar í Ríkisendurskoðun undir sama lið, með leyfi forseta:

„Í stað þess að taka bindandi ákvarðanir um fjárútgjöld ríkisins, tekjuöflun til að mæta þeim, sem og hugsanlegar lántökur, í fjárlögum hvers árs, er fjárheimildum skv. fjárlögum breytt á hverju einasta ári með fjáraukalögum og síðan eftir dúk og disk með lokafjárlögum.“

Þarna er ég með beina tilvitnun, virðulegi forseti, í umsögn Ríkisendurskoðunar sem segir okkur kannski allt um það í hvaða ferli fjárlögin og fjárreiður ríkisins eru.

„Almennt er viðurkennt að svona brotakennd ákvarðanataka um fjármál hins opinbera dragi mjög úr yfirsýn og aga við fjárlagagerð og beri því að forðast í lengstu lög. Aðeins í undantekningartilvikum ætti að breyta ákvæðum fjárlaga með fjáraukalögum innan ársins (ef brýn nauðsyn er til, útgjöld geta ekki beðið næstu fjárlaga og ekki er hægt að mæta þeim með flutningi milli fjárlagaliða, t.d. af „varasjóðum“ sem ætlaðir væru til að mæta slíku). Breytingar á fjárheimildum eftir á, eins og tíðkast í lokafjárlögum, ættu einfaldlega ekki að eiga sér stað.“

Hvers vegna staldra ég dálítið við þetta, virðulegi forseti? Ég geri það af þeirri einföldu ástæðu að verkefni sem Alþingi Íslendinga stendur frammi fyrir á næstu árum er gríðarlega mikið. Þess vegna er það skoðun mín að ef við náum ekki að losna við þetta agaleysi sem er í ríkisfjármálunum þá mun okkur ganga afskaplega illa. Nógu stórt er verkefnið sem fram undan er og að ráða við það.

Það er líka algjörlega óþolandi ef Alþingi Íslendinga tekur ákvörðun um hvernig á að vinna eftir fjárlögum og síðan þarf hugsanlega alltaf að leiðrétta suma forstöðumenn en aðra ekki. Það er hlutur sem við verðum að stoppa. Það gengur ekki lengur, virðulegi forseti, og ætti náttúrlega aldrei að ganga hvort heldur sem árar vel eða illa. Í því ástandi sem við erum í núna er ekki hægt að fara í harkalegan og óhjákvæmilegan niðurskurð sem fram undan er öðruvísi en að menn hafi aga og yfirsýn yfir það sem er að gerast í fjármálum ríkisins.

Síðan vil ég kannski hnykkja á, virðulegi forseti, í lok ræðutíma míns að þar sem Ríkisendurskoðun er búin að fara mjög vel yfir þessi mál hvet ég alla hv. þingmenn til að lesa þessa umsögn Ríkisendurskoðunar sem er mjög góð. Þá segir hér í niðurlagi Ríkisendurskoðunar, með leyfi forseta:

„Að mati Ríkisendurskoðunar hefur lítið sem ekkert þokast áfram við að taka á þeim vandamálum sem hér er fjallað um. Svör stjórnvalda um hvernig gangi að hrinda umbótum í framkvæmd og sem birt eru í seinni skýrslunni hljóða almennt á þá leið að málin séu enn þá í skoðun.“

Síðan segir í síðustu setningunni, með leyfi forseta:

„Brýnt er að Alþingi bregðist við þessum athugasemdum og þegar verði hafin endurskoðun á lögum um fjárreiður ríkisins með það fyrir augum að bæta fjármálastjórn ríkisins og taka á þeim vandamálum sem upp hafa komið.“

Ég tel, virðulegi forseti, vera mjög mikilvægt að hv. fjárlaganefnd og þingið í heild sinni að sjálfsögðu fari yfir þetta og komi skikki á það í framtíðinni.

Virðulegi forseti. Þetta er ekki að gerast fyrst núna. Einhver hv. stjórnarandstöðuþingmaður getur ekki komið og sagt: Þetta er jú allt hæstv. ríkisstjórn að kenna. Það segi ég ekki með þessum orðum mínum. Þetta er vandi sem er búinn að vera hér í áraraðir ef ekki áratugi og við hv. þingmenn þurfum að taka höndum saman til þess að leysa þetta verkefni og koma skikki á fjármál ríkisins og eftirfylgni með þeim eins og kemur skýrlega fram í umsögn Ríkisendurskoðunar. Í niðurlaginu stendur að það sé margbúið að benda á þessa hnökra en það hafi engu skilað. Einu svörin sem Ríkisendurskoðun fær eru að málin séu enn þá í skoðun. Það breytist ekki neitt. Þannig að nú segi ég, virðulegi forseti: Ef við breytum þessu ekki núna þá breytum við þessu aldrei við þær aðstæður sem nú eru.

Ég vil nota síðustu mínútuna sem ég hef til að ræða það, virðulegi forseti. Flutt var nefndartillaga frá fjárlaganefnd sem fjallaði um að bæta aðgengi hv. fjárlaganefndar að bókhaldsgögnum þannig að hv. fjárlaganefnd gæti fylgst betur með því sem væri að gerast. Hugsanlega gæti hv. fjárlaganefnd fengið nefndaritarana til þess að skoða fyrir sig einstakar stofnanir og hvað væri að gerast, þ.e. efla og styrkja eftirlitshlutverk fjárlaganefndar. Ég var fyrsti flutningsmaður að tillögunni sem allir hv. þingmenn í fjárlaganefnd stóðu að. Það er hægt að segja að þverpólitísk samstaða sé um þetta mál. Hver einasti hv. þingmaður stóð að tillögunni. Hún kom á dagskrá hér í lok janúar og mér var tjáð deginum áður að ég ætti að mæla fyrir henni. Síðan var henni kippt út af dagskrá. Ég vil nota síðustu sekúndurnar til þess að spyrja hæstv. forseta þingsins hvort hún geti grafist fyrir um það hvernig standi á því að þessi tillaga fékk þessa meðhöndlun á hv. Alþingi.