138. löggjafarþing — 132. fundur,  7. júní 2010.

lokafjárlög 2008.

391. mál
[12:35]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er eflaust rétt sem hv. þm. Guðbjartur Hannesson segir og ég get tekið undir að hluta þó að ég hafi ekki þekkt þessi vinnubrögð áður en ég settist inn á þing fyrir rúmu ári. Samt sem áður er það skoðun mín að við séum rétt að byrja að fara upp brekkuna. Við eigum eftir að taka miklu meira á til að koma einhverjum aga á ríkisfjármálin. Eitt af því sem ég hef haft miklar athugasemdir við er svokallað tilsjónarmannakerfi. Í því felst að ef forstöðumaður stofnunar getur ekki rekið hana eins og til er ætlast samkvæmt fjárlögum og er þess vegna ekki hæfur til að sinna starfi sínu að mati þeirra ráðenda sem grípa inn í ferilinn er settur tilsjónarmaður yfir stofnunina en eigi að síður vinnur forstöðumaðurinn áfram og fær launin. Það kom fram fyrir nokkrum mánuðum þegar fulltrúi eins ráðuneytis sagði að það væri verið að þróa þessa hugmynd áfram. Þessu er ég algerlega mótfallinn, virðulegi forseti. Ef forstöðumaður stofnunar getur ekki rekið hana og þarf að fá einhvern tilsjónarmann til að vinna starfið sitt á hann að fara í aðra vinnu. Það er mín persónulega skoðun. Þess vegna þurfum við að taka meira á, en ég get að sjálfsögðu tekið undir það með hv. þm. Guðbjarti Hannessyni að eflaust hefur eitthvað áunnist og klárlega hafa vinnubrögðin breyst eins og í þessu tilfelli sem ég nefndi áðan, annars vegar vegna byggingarinnar á tónlistarhúsinu og hins vegar byggingar nýs landspítala. Um það er ekki deilt og ég er algerlega sammála því. Sú vinna sem fór fram í hv. fjárlaganefnd í því máli var til fyrirmyndar og menn unnu þá vinnu alveg til enda. Menn þurfa samt sem áður að fara í ákveðna vinnu til viðbótar áður en þeir geta tekið endanlega afstöðu til þess verkefnis.