138. löggjafarþing — 132. fundur,  7. júní 2010.

atvinnuleysistryggingar og húsaleigubætur.

554. mál
[17:24]
Horfa

Frsm. fél.- og trn. (Sigríður Ingibjörg Ingadóttir) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Þetta eru góð orð af hálfu hv. þm. Péturs Blöndal. Að sjálfsögðu hlýtur það að vera hlutverk okkar fyrst og fremst að koma fólki aftur til vinnu, að skapa atvinnutækifæri fyrir fólk. Þess vegna sagði ég já hér fyrr í dag við fjárfestingarsamningi um gagnaver. Þó að það sé umdeilt hvaða aðilar koma að þeim samningi, var það mat mitt að meira en svo væri í húfi að við gætum hafnað slíku tækifæri.

Ég vil líka taka undir með hv. þingmanni að fólk sem hefur verið lengi atvinnulaust, sækir um starf dag eftir dag, viku eftir viku, mánuð eftir mánuð en fær ekki svör við atvinnuumsóknum sínum. Slíkt er fullkomið virðingarleysi. Það er mjög sorglegt til þess að vita að í samfélagi okkar sé ekki borin meiri virðing fyrir fólki en svo að það þyki sjálfsagt að svara ekki atvinnuumsóknum. Ég hef heyrt persónulega í fólki sem tekur þetta mjög nærri sér og finnst þetta fullkomið virðingarleysi.

Ég held að það sé full ástæða til að við í félags- og tryggingamálanefnd hefjum næsta haust vinnu við þetta. Það eru nú svo sem verkefni í nefndinni fyrir haustið og munu einhver þeirra eflaust flytjast yfir á nýtt þing. En ég held að það sé algjörlega ljóst að við hljótum að ræða atvinnumálin og þá hlið sem lýtur að Vinnumálastofnun. Það er frekar í iðnaðar- og öðrum nefndum sem sjálf atvinnumálin eru, vinnumarkaðurinn heyrir náttúrlega undir félags- og tryggingamálaráðuneytið. Það er fullkomlega tímabært að við setjum þau mál í forgang.