138. löggjafarþing — 132. fundur,  7. júní 2010.

notendastýrð persónuleg aðstoð við fólk með fötlun.

354. mál
[18:02]
Horfa

Margrét Tryggvadóttir (Hr):

Frú forseti. Það gleður mig meira en orð fá lýst að þessi þingsályktunartillaga skuli nú vera komin til 2. umr. og að hv. félags- og tryggingamálanefnd hafi farið um hana höndum og mælst til þess að hún verði samþykkt óbreytt.

Ég held að það sé ekki oft í lífinu sem hver og einn fær tækifæri til að stuðla að eins byltingarkenndum grundvallarbreytingum á lífi annarra og þingmenn fá með þessari tillögu en við erum að leggja til að þeir sem þurfa á aðstoð að halda við athafnir daglegs lífs geti stýrt þeirri aðstoð sjálfir með notendastýrðri persónulegri aðstoð, kjósi þeir það. Þetta er jafnréttismál og spurning um grundvallarmannréttindi.

Frú forseti. Þann 19. júní 1915 fengu íslenskar konur, 40 ára og eldri, langþráðan kosningarétt og kjörgengi til Alþingis. Hér er um að ræða sambærileg grundvallarréttindi sem eiga að vera sjálfsögð. Markmiðið er að fólk með fötlun geti almennt notið sjálfstæðis í lífi sínu til jafns við ófatlað fólk. Verði tillagan samþykkt síðar í vikunni, eins og ég vona, verður hæstv. félags- og tryggingamálaráðherra falið að leggja fram tillögu að útfærslu á þjónustunni ásamt frumvarpi til nauðsynlegra lagabreytinga strax á haustþingi 2010. Ég mun ganga eftir því að það standist.