138. löggjafarþing — 132. fundur,  7. júní 2010.

notendastýrð persónuleg aðstoð við fólk með fötlun.

354. mál
[18:03]
Horfa

Frsm. fél.- og trn. (Sigríður Ingibjörg Ingadóttir) (Sf):

Frú forseti. Ég kem hingað upp til þess að þakka hv. þm. Guðmundi Steingrímssyni fyrir að hafa haft frumkvæði að því að leggja fram þessa þingsályktunartillögu um löggjöf um notendastýrða persónulega aðstoð og gefið okkur samþingmönnum hans tækifæri til þess að fylgja honum í þeirri vegferð. Ég vil jafnframt þakka þeim fjölmörgu í samtökum fatlaðra sem hafa unnið í gegnum árin að því að vekja athygli á þeim grundvallarmannréttindum sem þessi aðstoð er, þar sem fatlaðir geta sjálfir valið hvaða þjónustu þeir fá og hvenær og hverjir veiti þá þjónustu.

Þegar ég kom inn nýr þingmaður vorið 2009 þekkti ég ákaflega lítið til þessara mála og ef ekki hefði verið fyrir mjög öflugan málflutning Þroskahjálpar, ViVe-hópsins, sem stendur fyrir „virkari velferð“, og fleiri sem vígðu mig inn í heim þeirra aðstæðna sem fatlaðir búa við. Mér finnst ég vera ríkari manneskja eftir að hafa fengið að kynnast þessu fólki og ötulli baráttu þeirra. Ég vil óska þeim innilega til hamingju með þennan glæsilega árangur sem hv. þm. Guðmundur Steingrímsson tók að sér að landa. Síðan á að sjálfsögðu eftir að smíða löggjöfina og ég tek undir með hv. þm. Margréti Tryggvadóttur að auðvitað er það okkar hér í þinginu að sjá til þess að unnið sé samkvæmt þeim ályktunum sem við samþykkjum. Ég veit þó að í félags- og tryggingamálaráðuneyti hefur verið unnið að stefnumörkun varðandi notendastýrða persónulega aðstoð síðustu missiri þannig að þar á bæ er fólk ágætlega búið undir þá vinnu.

Mig langaði að lokum að segja varðandi þetta mál að þótt það komi frá þingmanni úr stjórnarandstöðu er það enn eitt jákvætt dæmi um þau mannréttindamál sem við lögfestum. Hér erum við náttúrlega ekki að lögfesta þessi mál en við erum að kalla eftir lögfestingu grundvallarmannréttinda og þessi ríkisstjórn hefur verið ötul við það. Hún hefur jafnvel fengið ákúrur fyrir að setja mannréttindamál í forgang og taka þau fram yfir skuldavanda heimilanna, sem er að sjálfsögðu mannréttindamál líka en bara með öðru sniði. Ég held að það sé mikilvægt að við gleymum því aldrei að mannréttindi eru forsenda lýðræðissamfélags. Ef við erum ekki alltaf á vaktinni og fylgjumst með því að allir einstaklingar í samfélagi okkar njóti mannréttinda búum við ekki í raunverulegu lýðræðisþjóðfélagi. Það var mjög mikið einkenni á þeim tíma þegar allt fór hér í vitleysu, sem endaði með hruni fjármálakerfisins og gjaldmiðilsins, að það dró mjög úr lýðræði í landinu. Margir hafa talað um þöggun og í raun og veru ótta fólks við að segja skoðanir sínar. Þess vegna skulum við alltaf muna að mannréttindi eru grundvöllur lýðræðis og lýðræði og mannréttindi eru grundvöllur jafnaðar. Ég stend hér sem fulltrúi jafnaðarhugsjónarinnar á Íslandi og þar af leiðandi er það mér einstaklega mikilvægt að fá að vera þátttakandi í því að samþykkja þessa tillögu.