138. löggjafarþing — 132. fundur,  7. júní 2010.

happdrætti.

512. mál
[20:04]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég stend mig oft að því að segja eitthvað og undirstrika ekki nægilega forsendur þess vegna þess að svo virðist vera að fólk heyri sumt en sumt ekki. Ég ætla að endurtaka það sem ég sagði og ég sagði það reyndar í tvígang að það fólk sem þess óskar getur sjálft látið svipta sig sjálfræði. Ég mundi vilja ganga lengra. Menn þyrftu að ítreka fyrir framan dómara í tvígang að þeir vildu raunverulega ráða bót á vanda sínum með því að viðurkenna þá staðreynd að þeir hefðu ekki lengur vilja. Það er nauðsynlegt að hafa vilja til að hafa sjálfræði. Maður sem vill eða langar til að vinna bug á fíkniefnavanda sínum eða spilafíkn eða hvað það er og þarf að fara í gegnum langa meðferð, segjum í sex mánuði, getur núna hvenær sem er afturkallað þá ákvörðun sína og hætt við þegar fíknin kallar, (Gripið fram í.) þegar viljann brestur og löngunin verður of sterk. Ég ætla að endurtaka þetta enn einu sinni til að hafa það alveg á tæru: Þeir fíklar sem þess óska í tvígang fyrir framan dómara geta fengið það í gegn að vera sviptir sjálfræði. Ég er alls ekki að tala um að þetta verði gert sjálfvirkt af einhverjum þriðja aðila. (Gripið fram í.) Ég er að tala um að ef fíkillinn sjálfur óskar eftir því að vera sviptur sjálfræði sé hægt að gera það í tvö ár eða eitthvað slíkt en hann yrði þá að óska eftir því hjá dómara sem mundi úrskurða um það að hann væri algerlega sjálfráður gerða sinna og vildi raunverulega gera það sem hann óskar eftir.