138. löggjafarþing — 132. fundur,  7. júní 2010.

hlutafélög, einkahlutafélög og ársreikningar.

569. mál
[22:07]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Þetta frumvarp sem við ræðum er að mínu mati merkilegt og gott mál. Það er á vissan hátt svar við þeim álitamálum sem komu upp í kjölfar efnahagshrunsins en einnig svar við ábendingum margra okkar í gegnum tíðina sem lúta að vernd minni hluthafanna, minni hluta hluthafa sem stundum eru kallaðir svo.

Þetta mál er ekki einfalt, eins og margoft hefur verið vakin athygli á og m.a. er rakið í athugasemdum við lagafrumvarpið. Vitaskuld hafa reglur um minnihlutavernd sín takmörk. Það er til lítils fyrir einstaklinga sem hafa með sér samtök um að kaupa fyrirtæki og komast þar til meirihlutaáhrifa ef þau meirihlutaáhrif duga ekki til þess að ráða mestu um stjórn félagsins. Það er út af fyrir sig sjálfsagður hlutur og þarf ekki að orðlengja um að við hljótum að virða þetta meginsjónarmið. Grundvöllurinn fyrir því að gera menn áhugasama um að kaupa sig til áhrifa í atvinnurekstri er að þeir hafi einhver ráð um það hvernig fyrirtækjunum er ráðið og stjórnað.

Það breytir hins vegar ekki því að til þess að þessi mál gangi öll vel fyrir sig verða líka að vera til skýrar reglur um það hver réttur minni hluthafa er. Minni hluthafar eru oft og tíðum einstaklingar sem hafa af ýmsum ástæðum áhuga á því að taka þátt í atvinnurekstri, án þess þó að vilja vera ráðandi eða mótandi um reksturinn sjálfan en vilja auðvitað hafa af því beina fjárhagslega hagsmuni, að farið sé þannig með rekstur fyrirtækisins að þeir hafi af því ábata. Þess vegna er eðlilegt að þeir hafi aðkomu að þeim málum til þess að verja eigin hagsmuni.

Því var oft haldið fram áður að í rauninni væri ekki ástæða til þess að hafa miklar áhyggjur af stöðu minni hluthafa vegna þess að stjórn fyrirtækis hefði það hlutverk með höndum að tryggja rekstur viðkomandi fyrirtækis og þess vegna færu hagsmunir minni hluthafanna og stjórnar fyrirtækisins alltaf saman. Þetta hljómar kannski vel og ekkert ósennilega þegar það er sagt svona í fyrsta sinn en reynslan hefur sýnt okkur annað. Það sem við höfum séð núna eftir hrunið, m.a. í rannsóknarskýrslu Alþingis, er að hagsmunir hluthafanna hafa einfaldlega ekki verið tryggðir af stjórnum ýmissa fyrirtækja, þar hafa allt aðrar hvatir ráðið för. Menn hafa verið að skara eld að eigin köku. Ýmsir stjórnarmenn hafa ótæpilega gengið erinda stærstu hluthafanna, jafnvel þótt það hafi haft skaðvænleg áhrif á viðkomandi fyrirtæki og hagsmuni hinna minni hluthafa.

Það er svo sem ekki nýtt að vandi minni hluthafa blasi við og þess vegna flutti ég ein tvö frumvörp á fyrri þingum með hv. þingmönnum úr öllum þingflokkum sem þá voru á Alþingi, m.a. núverandi hæstv. forsætisráðherra og hæstv. fjármálaráðherra, til þess að reyna að tryggja að hægt væri að bregðast við aðstæðum sem kynnu að koma upp þar sem litlir hluthafar væru í vonlausri stöðu með sín mál.

Dæmi: Sú staða kann að koma upp að lítill hluthafi finni að hann sé algjörlega áhrifalaus. Hann hefur enga möguleika á því að beita hlutafjárvaldi sínu til þess að hafa eitthvað með það að gera hvert fyrirtækið stefnir. Hann er í rauninni læstur inni með hlutafé sitt. Það hefur ekki myndast markaðsverðmæti vegna þess að hlutabréfin hafa ekki gengið kaupum og sölum og þess vegna getur stóri hluthafinn, meiri hluta hluthafinn, nánast boðið þeim litla upp á hvaða býtti sem er. Slík dæmi rak á fjörur mínar og gerðu það að verkum að ég taldi nauðsynlegt að við reyndum að breyta þessum lögum. Því lagði ég fram frumvarp, eins og ég sagði áðan, sem hafði þetta að markmiði.

Í þessu frumvarpi getur að líta ýmis atriði sem eru á vissan hátt svar við þessu. Það er ekki farin nákvæmlega sú leið sem við hv. þingmenn lögðum til á þeim tíma en leiðin er heldur ekki aðalatriðið, aðalatriðið er markmiðið og hvort menn nái markmiðinu. Ég hygg að þegar grannt er skoðað megi færa fyrir því rök að bæði 2. gr. og 4. gr. þessa frumvarps séu á vissan hátt svar við því sem við vorum að velta fyrir okkur og lögðum til breytingar á.

Í fyrsta lagi er í 2. gr. opnað á að ef sérstakar aðstæður og veigamikil rök standi til þess geti minni hluthafinn krafist dóms um innlausn hlutar síns. Fyrir því eru sett sérstök skilyrði: Ef talið er að forsvarsmenn fyrirtækisins hafi brotið gegn ákvæðum laga um einkahlutafélög um öflun ótilhlýðilegra hagsmuna, eða aðrir hluthafar í félaginu hafi misbeitt áhrifum sínum, eða staðið hafi yfir djúpstæður og langvarandi ágreiningur, geti minni hluthafarnir krafist dóms til þess að fá úr þessum málum skorið og því hvert verðmæti hlutafjárins sé.

Hitt atriðið sem getur að líta í 4. gr. frumvarpsins, sem ég hygg að sé líka gríðarlega mikilvægt og muni örugglega koma oft til álita, er að í hlutafélögum sem ekki eru skráð hlutafélög, hinum dæmigerðu litlu eða meðalstóru hlutafélögum, geta hluthafar sem ráða yfir minnst 5% hlutafjár krafist þess við stjórn félagsins innan mánaðar eftir að stjórnin tilkynnir um samning að endurskoðanda, öðrum en endurskoðanda félagsins, verði falið að meta að hve miklu leyti hann sé sanngjarn og efnislega rökstuddur. Í þessu felst auðvitað heilmikið skjól og möguleiki til þess að draga fram hið raunverulega verðmat. Minni hluthafinn getur eftir þetta staðið miklu sterkar og fastar í ístaðinu til þess að verja hagsmuni sína.

Menn velta því dálítið fyrir sér núna hvers vegna við erum yfir höfuð að ræða um hagsmuni minni hluthafanna. Ég held að fyrir því séu ýmis rök. Í fyrsta lagi er gríðarlega mikilvægt að fólkið í landinu geti átt þess kost að taka þátt í endurreisn atvinnulífsins með því að festa fé sitt sem áhættufjármagn í atvinnurekstri. Atvinnulífið okkar þarf mjög á fjármunum að halda. Það eru líka ýmis tækifæri núna til þess að fjárfesta í ýmsum atvinnugreinum en þá kemur alltaf upp spurningin um traust. Það er kjarni málsins að mínu mati í þessu sambandi, að við reynum að byggja upp traust. Að þau skilaboð berist til fólksins í landinu, hvort sem það eru þingmenn, forsvarsmenn verkalýðshreyfingarinnar eða almenningur annar, að menn hafi traust á því að fjárfesta í atvinnurekstri. Þetta traust hefur beðið hnekki. Það traust sem við þurfum á að halda er ekki lengur til staðar. Menn hika við að leggja fjármuni í áhætturekstur vegna þess að menn hafa í mörgum tilvikum brennt sig ansi illa í þeim efnum. Þess vegna er svo mikilvægt fyrir okkur að búa þannig um hnútana í lagaumhverfinu að það verði til traust svo að áhugasamir aðilar um að taka þátt í fjárfestingu í atvinnurekstri, menn sem vilja gjarnan og hafa kannski leyndar hvatir til þess að verða kapítalistar, geti leyst þessar hvatir sínar úr læðingi og orðið kapítalistar, jafnvel þótt þeir séu nokkuð við aldur. (Gripið fram í.) Þetta hefur maður auðvitað mjög í huga í þessu sambandi.

Í annan stað er það markmið í sjálfu sér að stuðla að virkri þátttöku almennings í atvinnurekstri. Við vitum að í því felst tiltekin valddreifing og möguleiki á, ef vel tekst til í atvinnurekstri, að menn geti auðgast og notið ávöxtunar af því. Þetta getur í raun og veru verið aðferð til að bæta lífskjör almennings í landinu, eins og oft gerðist þegar vel tókst til í atvinnurekstrinum hér áður fyrr.

Í þriðja lagi vil ég nefna í þessu sambandi að ef við getum laðað almenning að því að taka þátt í atvinnurekstri mun það fyrirkomulag líka stuðla að því að auðvelda fjármögnun atvinnulífsins. Á því þurfum við mjög að halda. Fjármagn er af skornum skammti. Það er dýrt og þess vegna skiptir mjög miklu máli ef hægt er að laða sem flesta að því að taka þátt í atvinnurekstrinum.

Ég vildi með öðrum orðum, virðulegi forseti, aðeins setja þessi mál í pólitískt samhengi, sem ég held að skipti miklu máli. Við erum ekki bara að ræða tæknilegar úrlausnir heldur erum að gera þetta í ákveðnum tilgangi sem ég hef farið nokkrum orðum um. Ég vil eins og aðrir fagna því að það er að takast mjög breið pólitísk samstaða um að treysta minnihlutaverndina. Mér sýnist með öðrum orðum að það sé að verða til breið pólitísk samstaða um að reyna að hvetja almenning til þess að verða þátttakendur í atvinnulífinu. Það fólk er ekki lengur litið hornauga sem leggur fé sitt inn í atvinnurekstur í landinu. Það er heilmikill áfangasigur að þrátt fyrir það hrun sem orðið hefur í efnahagslífi okkar og þá dómsdagsdóma sem kveðnir hafa verið upp um það fyrirkomulag að almenningur taki þátt í atvinnulífinu og leggi fé sitt þangað erum við með þessari lagasetningu, að ég hygg, að leggja drög að því að endurreisa það bráðnauðsynlega traust sem beið svo mikinn hnekki.

Ég vil eins og aðrir þakka bæði forustu nefndarinnar og nefndarmönnum fyrir gott starf í þessum efnum og fagna því að gamlar hugsjónir geti ræst.