138. löggjafarþing — 133. fundur,  8. júní 2010.

stjórnlagaþing.

152. mál
[21:49]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Óla Birni Kárasyni fyrir ágæta ræðu um stjórnlagaþingið og fræðandi. Ég hnaut um það að hann talaði frekar lítið um 79. gr., en það er nú einmitt það sem er kannski aðaláhugamál mitt í þessu sambandi vegna þess að ég tel að það verði að breyta henni áður en menn geti nokkuð gert. Málið er það að þjóðin hefur aldrei greitt atkvæði um stjórnarskrá. Það er nefnilega þannig að 79. gr., eins og hún er nú, segir að um leið og fram komi tillaga sem er samþykkt um breytingar á stjórnarskránni skuli rjúfa þing, sem þýðir að svona tillögur eru yfirleitt samþykktar í lok kjörtímabilsins.

Þegar búið er að rjúfa þing á að sjálfsögðu að efna til kosninga og þá verður kosið upp á nýtt og nýtt þing á að samþykkja breytinguna sem hið fyrra hafði samþykkt. Það þýðir að þjóðin er ekkert að greiða atkvæði um stjórnarskrá, hún er að greiða atkvæði í alþingiskosningum um þing sem á að stjórna landinu næstu fjögur árin. Þetta er mjög miður. Þess vegna vildi ég spyrja hv. þm. Óla Björn Kárason að því hvort hann telji það ekki númer eitt, tvö og þrjú að breyta 79. gr. þannig að breytingar á stjórnarskránni geti verið liprari og að þjóðin sé þá raunverulega að greiða atkvæði um stjórnarskrána þegar hún greiðir atkvæði samkvæmt 79. gr. þannig breyttri. Þetta tel ég vera mjög mikilvægt og allar umræður um stjórnarskrá eru eiginlega markleysa þar til menn eru búnir að breyta þessu.