138. löggjafarþing — 133. fundur,  8. júní 2010.

stjórnlagaþing.

152. mál
[22:20]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég veit ekki hvað þjóðin vill, ég þekki hana ekki. Ég þekki einstaklinga, fjölda einstaklinga en ég þekki ekki þjóð. Ég þekki ekki 300 þúsund manns og hef langt í frá talað við þá alla. Þess vegna tala ég aldrei í nafni þjóðarinnar. Þjóðin hefur örugglega einhvern sameiginlegan vilja en það er mjög erfitt að henda reiður á honum, það eru svo margir mismunandi einstaklingar.

Mér fannst mjög áhugavert að heyra hv. þingmann greina hvað hún teldi að „þjóðin“ vildi, öryggi fjölskyldunnar, hamingju o.s.frv. Þetta er alvöruumræða. Svo er það spurning hvernig menn eiga að vera kosnir eða hvernig eigi að velja hópinn sem á að móta þessa umræðu. Einhver verður að ritstýra, það gengur ekki að ég skrifi eitthvað eða bloggi eða eitthvað svoleiðis og einhver annar bloggi eitthvað og enginn ritstýri eða samræmi og enginn dragi saman niðurstöður. Þá fæst aldrei niðurstaða.

Ég held því að við ættum að ræða miklu meira um það hvernig ætti að velja inn á þetta svokallaða stjórnlagaþing eða sáttmálaþing eða sáttmálasamkundu eða hvað menn vilja kalla það heldur en að lesa alla stjórnarskrána. Ég er alveg sammála því, ég las hana einu sinni og hún er alveg furðulegt plagg, sérstaklega 3. kaflinn sem hv. þingmaður las um forsetann. Það má segja að allt þar séu öfugmæli. „Forsetinn gerir samninga við erlend ríki.“ Það er ekki rétt. „Forsetinn ræður opinbera starfsmenn.“ Það er ekki rétt, vegna þess að 13. gr. tekur þetta allt úr sambandi. Það segir mér og svo sem hv. þingmanni líka að þetta er náttúrlega bara „kópí peist“ úr dönsku stjórnarskránni þar sem kóngurinn var gerður valdalaus.