138. löggjafarþing — 133. fundur,  8. júní 2010.

stjórnlagaþing.

152. mál
[23:20]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka þingmanninum fyrir þau svör sem hún gaf hvað þetta varðar. Ég minni á að enn þá stendur út af spurning mín um kynjakvótann. Ég er í öllum meginatriðum sammála þeim sjónarmiðum sem hv. þingmaður setti fram fyrir máli sínu og ég tel að hún hafi rökstutt vel afstöðu sína með vísan til þess sem flokkur hennar, Framsóknarflokkurinn, hefur sagt og samþykkt um þessi mál. En ég get ekki varist því að þykja afstaða flokksins í allsherjarnefnd vera í ósamræmi við það sem hv. þingmaður rakti máli sínu til stuðnings þar sem hún vísaði í samþykktir Framsóknarflokksins. Þetta finnst mér vera misvísandi skilaboð frá Framsóknarflokknum. Nú kann vel að vera að það sé fullkomlega eðlilegt að það séu skiptar skoðanir innan flokka um þetta mál. Þetta er ekki beint flokkspólitískt. En mér finnst mikilvægt að fá þetta fram. Ég þakka hv. þingmanni fyrir hennar ræðu og hennar afstöðu í þessu máli sem ég í öllum meginatriðum get tekið (Forseti hringir.) undir.