138. löggjafarþing — 134. fundur,  9. júní 2010.

störf skilanefnda bankanna.

[14:26]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Frú forseti. Ég get tekið undir það sem kom fram í máli hv. málshefjanda í þessari umræðu, störf skilanefndanna eru að mörgu leyti þokukennd fyrir samfélagið allt. Þau eru það fyrir okkur þingmenn og þau eru það í samfélaginu almennt að mestu leyti.

Ég ætla fyrst og fremst að gera að umtalsefni þann þátt málsins sem varðar störf skilanefndanna, þóknun til þeirra og annað slíkt sem hefur mikið verið í fjölmiðlaumræðunni og við þekkjum. Um störf þessara nefnda gilda ákveðin lagaákvæði. Í gjaldþrotaskiptalögunum er kveðið á um að starf skilanefndarmanna eigi að vera innt af hendi af þeim persónulega og það á að uppfylla ákveðnar reglur um bókanir og upplýsingar til kröfuhafa. En við höfum frásagnir um að heilu lögfræðistofurnar vinni þessi verk alls staðar í kringum borðið þannig að í raun og veru er þetta orðið eins og einn vöndull, hálfgerður vafningur í sjálfu sér. Mér finnst það talsvert umhugsunarefni.

Það er líka kveðið á um það í gjaldþrotaskiptalögunum að þeim sem fara með þetta hlutverk sé heimilt að taka sér greiðslu af fé búsins upp í áfallna þóknun og fyrir útlögðum kostnaði og öðru slíku, en þar segir líka að menn eigi að gæta hófs. Í hæstaréttardómi frá árinu 1996 var m.a. endurmetið tímagjald skiptastjóra þar sem talið var að viðkomandi hefði tekið sér óhóflega háa þóknun og sönnunarbyrði um réttmæti tímaskráningar og starfa fyrir búið var lögð á skiptastjórann. Þetta finnst mér að megi alveg hafa í huga í þessu efni.

Síðan vil ég að lokum segja að ég tel, og tek undir með hv. þm. Helga Hjörvar, tímabært að (Forseti hringir.) fela slitastjórnum allt starf er lýtur að uppgjöri bankanna og leggja skilanefndirnar niður.