138. löggjafarþing — 134. fundur,  9. júní 2010.

bygging nýs Landspítala við Hringbraut.

548. mál
[23:51]
Horfa

Anna Margrét Guðjónsdóttir (Sf):

Frú forseti. Ég kem hér upp til að ræða frumvarp til laga um stofnun opinbers hlutafélags um byggingu nýs Landspítala við Hringbraut í Reykjavík. Það er einkum tvennt sem ég vil ræða um í örstuttu máli, það er annars vegar fjármögnun framkvæmdarinnar og hins vegar hönnunarsamkeppni sem nú er farin af stað eða ekki samkeppni heldur eru nokkur teymi farin að vinna.

Fyrst að fjármögnun framkvæmdarinnar: Þar er ég á svipuðum nótum og þegar rætt var um opinbert hlutafélag um vegaframkvæmdir, sem rætt var hér fyrr í vikunni, að mér finnst eðlilegt að gert sé ráð fyrir því að hið opinbera hlutafélag leiti eftir öðrum fjármögnunarkostum en einungis lífeyrissjóðunum. Þetta mál er að vísu til komið, eða að hluta, af stöðugleikasáttmála ríkisstjórnarinnar og aðila vinnumarkaðarins með aðkomu lífeyrissjóðanna þannig að það er mjög eðlilegt að líta á þá sem fyrsta kost í þessu máli. En það kemur fram í umsögn fjármálaráðuneytisins með frumvarpinu að ætlunin sé að bjóða út byggingu húsnæðisins og rekstur þess og að verkefnið muni falla undir lög og reglur um opinber innkaup og á það einnig við um fjármögnunina. Það þýðir að verkefnið er af þeirri stærðargráðu að það er gert ráð fyrir að verkefnið og fjármögnunin verði boðin út.

Ég vil í þessu sambandi, líkt og ég gerði þegar rætt var um opinbert hlutafélag um samgöngur, benda sérstaklega á þann möguleika sem opnast Íslendingum núna eða þegar að því kemur að við fáum formlega stöðu aðildarviðræðuríkis við Evrópusambandið að þá mun okkur væntanlega opnast aðgangur að Evrópska fjárfestingarbankanum og þeir hafa lánað mjög ríkulega til byggingar sjúkrahúsa. Ég vil einkum vekja athygli þingmanna á því að á heimasíðu bankans er t.d. að finna lýsingar á nýju láni til Karólínska háskólasjúkrahússins í Stokkhólmi, sem var samþykkt í lok árs í fyrra. Það verkefni er mjög svipað þessu sem er til umfjöllunar hér, þar er verið að byggja nýtt hátæknisjúkrahús í miðborg Stokkhólms og verið er að byggja við gamla sjúkrahúsið og Evrópski fjárfestingarbankinn hefur lánað þriðjung áætlaðs kostnaðar við gerð sjúkrahússins. Mér finnst sjálfsagt að hið væntanlega hlutafélag, ef af verður, kanni þennan möguleika enda held ég að það geti líka verið skynsamlegt að hluti af lánveitingunni komi utan frá vegna þess að það er einboðið að það þarf að bjóða verkið út á Evrópska efnahagssvæðinu, þetta er af þeirri stærðargráðu. Þá getur það hugsanlega sparað talsverða fjármuni að vera með lán í evrum, ef guð lofar, þar sem gera má ráð fyrir að það verði sá gjaldmiðill sem nota þarf ef erlendir eða evrópskir verktakar verða lægstir í útboðinu. Ég ítreka það því að mér finnst mjög skynsamlegt að hlutafélagið kanni möguleikann á láni. Þá eru ekki bara peningar í boði heldur veitir bankinn líka mjög ríka ráðgjöf við fjármögnun stórra verkefna, m.a. svona flókinna verkefna eins og hér eru í uppsiglingu ef lögin verða samþykkt.

Það er annað mál sem ég vildi vekja stuttlega athygli á og það er mál sem snýr að hönnun sjúkrahússins. Mér hefur borist til eyrna að það hafi valdið nokkrum titringi, t.d. í Arkitektafélagi Íslands, hvernig að hönnun mannvirkisins eða framkvæmd hönnunar er staðið og meðferð höfundaréttar og ég held að það sé tilefni til að skoða þetta. Nú þegar eru fimm hönnunarteymi farin af stað, þau voru valin í einhvers konar forkeppni sem verkefnisstjórn um byggingu sjúkrahússins stóð fyrir. Það er einmitt rétt að bæta því við í þessu sambandi, af því að hv. þm. Höskuldur Þórhallsson talaði í ræðu sinni áðan um að þetta mundi ekki skapa störf fyrr en eftir langan tíma, að það er auðvitað ánægjulegt að af þeirri stétt sem fyrir utan iðnaðarmenn hefur kannski komið einna verst út úr samdrættinum á Íslandi, sem eru einmitt hönnuðir, skuli nú fimm teymi — og ég held að í hverju séu býsna margir, hundrað manns í hverju teymi — hafa fengið vinnu við eða greidd laun fyrir að taka þátt í þessari samkeppni. Svo mun eitt af þessum teymum halda áfram.

Þar er ég einmitt komin að því sem ég vildi vekja athygli þingsins á og það er klásúla í útboðslýsingu við sjúkrahúsið þar sem talað er um höfundarétt. Með leyfi frú forseta, segir:

„Verkkaupi hefur ákveðið að bjóða verkið út á þeim skilmála að höfundaréttur að teikningum og mannvirkjum skuli framseljast til íslenska ríkisins […] Ástæða þessarar ákvörðunar liggur fyrst og fremst í eðli bygginganna, en sjúkrahús þurfa bæði breytinga og viðbóta við eftir því sem tíminn líður. Þá liggur fyrir að um fleiri byggingaráfanga verður að ræða. Vegna framgangs verkefnisins til lengri tíma og af hagkvæmnisástæðum er ekki talið heppilegt að íslenska ríkið verði í þeirri stöðu að óvíst sé um hvort breytingar á hönnun fái samþykki höfunda, að hætta sé á að ágreiningur rísi um hvort heimilt sé að breyta mannvirkjum síðar meir eða um frekari ráðstöfun höfundaréttarins svo sem til annarra stofnana sem kunni að verða settar á fót. Hins vegar felst nafngreiningarréttur höfunda ekki í framsalinu. Þannig felst ekki í skilmálum sú ákvörðun að íslenska ríkið verði sagt höfundur mannvirkja, heldur að hinn svokallaði fjárhagslegi höfundaréttur sé framseldur, þar með talinn réttur til breytinga og frekara framsals. Einnig verður svonefndur virðingarréttur framseldur að takmörkuðu leyti, það er að segja eins og leiðir af framangreindu.”

Hönnuðir og Arkitektafélag Íslands hafa sett varnagla við þessa klásúlu í hönnunarstaðlinum eða í samkeppnislýsingunni og hafa bent á og varað við að upp kunni að koma ákveðin óvissa þegar þessi skil verða í verkefninu, þ.e. þegar það fer af hönnunarstiginu yfir í að vera boðið út og væntanlegur verkkaupi kaupir þá hönnunina og nýir hönnuðir taka við. Það þýðir að það mun geta skapast óvissa um höfundaréttinn að byggingunni, hvar vatnaskilin verða er nokkuð ljóst en ef til þess kemur að einhverjir gallar verða í hönnun eða einhverju svoleiðis gæti komið upp vafamál sem kann að vera flókið að leysa úr. Ég held því að hér sé verið að fara út á einhverjar brautir sem eru ekki mjög skynsamlegar en það verður að vera skýrt hver sé ábyrgur fyrir hönnun hússins, þ.e. við erum komin með allnokkurt flækjustig þegar við erum með 1. stigs hönnun og 2. stigs hönnun og ég óttast að þetta geti leitt til ýmiss konar flókinna tæknilegra og lagalegra mála þegar fram líða stundir. Auk þess samræmist þetta afnám höfundaréttarins illa menningarstefnu í mannvirkjagerð sem er mikilvægur réttur hverra hönnuða og ég legg til að þessi þáttur verði skoðaður sérstaklega.