138. löggjafarþing — 135. fundur,  10. júní 2010.

störf þingsins.

[12:22]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Ég ætla aðeins að gera að umtalsefni frumvarp til laga um breytingu á lögum um Stjórnarráð Íslands, sem laumað var inn seint í gærkvöldi og dreift algerlega án samráðs, a.m.k. við framsóknarmenn og forustu Framsóknarflokksins. Ætla má að það sé vilji ríkisstjórnarflokkanna að keyra þetta mál í gegn og það vekur upp spurningar, sérstaklega um annan stjórnarflokkinn, Vinstri græn. Hvað gengur þeim til með því að leggja í rauninni til að sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið, svo eitthvað sé nefnt, verði lagt niður? Ég þarf ekki að leita langt eftir skýringu á því hvers vegna Vinstri græn hafa ákveðið að hefja þá vegferð að leggja niður höfuðráðuneyti aðalatvinnuvega landsins. Það er að sjálfsögðu vegna þess að Vinstri græn eru komin á fullt í þá vegferð með Samfylkingunni að þvæla Íslandi inn í Evrópusambandið. Þarna býr ekkert annað að baki.

Stóra málið í þessum breytingum á Stjórnarráðinu er að fylgja eftir óskum Samfylkingarinnar um að komast inn í Evrópusambandið. Það þarf að breyta Stjórnarráðinu. Það þarf að breyta stjórnskipuninni til að þetta sé hægt og í þessa vegferð eru menn farnir. Það er mjög sorglegt að sjá og heyra menn tala eins og að þegar þetta sé komið inn í þingið sé einfalt mál að láta breyta frumvarpinu í þinginu þannig að þetta verði ekki að veruleika. Auðvitað er það ekki þannig. Þegar stjórnarflokkarnir eru búnir að koma frumvarpinu inn í þingið verður þetta keyrt í gegn, því að það á hug þeirra og hjarta að komast inn í Evrópusambandið. Það er sorglegt að sjá hvernig Vinstri græn svíkja flest kosningaloforðin sem þau gáfu fyrir síðustu kosningar með því að vaða gegn höfuðatvinnuvegum landsins.