138. löggjafarþing — 135. fundur,  10. júní 2010.

bygging nýs Landspítala við Hringbraut.

548. mál
[13:33]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S) (um atkvæðagreiðslu):

Forseti. Við sjálfstæðismenn í fjárlaganefnd erum með fyrirvara á þessu máli, styðjum það með þeim fyrirvörum. Við höfum áhyggjur af þeirri aðferð sem hér er verið að beita, ekki bara við þetta mál heldur eru uppi áform um stór og mikil verkefni í svokallaðri einkaframkvæmd. Hér er þetta fært í þann búning að kalla þetta samstarfsframkvæmd hvað svo sem það þýðir. Það eru aðrir til að skýra það.

Ég vil leggja áherslu á að hér erum við fyrst og fremst að tala um fyrsta skrefið í þessu máli, þ.e. að gera kostnaðaráætlun sem við fáum svör við árið 2012. Hér er ekki, og ég vil undirstrika það í ljósi orða tveggja síðustu ræðumanna, verið að taka ákvörðun um byggingu nýs spítala. Það bíður Alþingis þegar allar þessar forsendur liggja fyrir.