138. löggjafarþing — 135. fundur,  10. júní 2010.

starfskjör launafólks og skyldutrygging lífeyrisréttinda.

558. mál
[13:49]
Horfa

félags- og tryggingamálaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Með því frumvarpi sem nú kemur til atkvæða er verið að greiða úr þeirri stöðu að þau gjöld sem falla undir nefnda grein í lögum um lágmarkskjör eru tæmandi talin. Það er því mikilvægt að breyta lögunum þannig að gjaldskylda í fræðslusjóði falli þar undir líka. Það er sérstakt undrunarefni ef minni hlutinn í nefndinni, stjórnarandstaðan, ætlar að sameinast um að greiða atkvæði gegn því grundvallarviðmiði sem verið hefur mjög mikilvægt á íslenskum vinnumarkaði um áratugaskeið, að lágmarkskjör séu umsamin í samningum milli aðila vinnumarkaðarins og að með lögum veitum við umsömdum lágmarkskjörum almennt gildi í landinu. Það er mikilvægt að standa vörð um þetta kerfi. Það hefur skilað íslensku samfélagi miklum ávinningi og ég legg því mikla áherslu á að þetta frumvarp verði samþykkt.