138. löggjafarþing — 135. fundur,  10. júní 2010.

almenn hegningarlög.

649. mál
[14:00]
Horfa

dómsmála- og mannréttindaráðherra (Ragna Árnadóttir) (andsvar):

Virðulegi forseti. Alþjóðleg samvinna gegn spillingu fer eins og ég sagði áðan fram í mörgum alþjóðastofnunum. Við höfum tekið þátt í samstarfi innan vébanda Evrópuráðsins og OECD. Við erum nú aðilar að öllum helstu samningum sem varða þetta réttarsvið. Það sem eftir stendur eru þá tilmæli frá eftirlitsnefndum þessara aðila hverju sinni, það eru ákveðin tilmæli óafgreidd og þarf að huga að. Sú vinna er í gangi, en það sem stendur kannski eftir er að efnisrétturinn er í sjálfu sér að komast á sinn stað og þá á ég við ákvæði almennra hegningarlaga. Það sem út af stendur er það sem hefur verið ögn í opinberri umræðu, framsalsmálin. Við erum aðilar að framsalssamningum á vettvangi Evrópuráðsins. Það sem stendur fyrir dyrum er að huga að því hvort við getum ekki orðið aðilar að hinni evrópsku handtökuskipun sem svo hefur verið kölluð. Við vinnum reyndar að því. Ég mundi segja að efnisrétturinn í sjálfu sér væri nokkurn veginn í góðu horfi fyrir utan ákveðin tilmæli um atriði sem við þurfum að huga að. Það sem kemur helst inn á borð stjórnvalda á næstunni, og þá Alþingis, er að huga að ýmsum málsmeðferðarreglum því tengdum þannig að hægt sé að fylgja efnisreglunum eftir. Það segir sig sjálft að það dugar skammt að hafa efnisreglurnar á sínum stað í alþjóðlegri samvinnu ef málsmeðferðarreglurnar eru það ekki.